Flugi aflýst

Þegar flugi er aflýst gilda í flestum tilvikum sérstakar reglur er varða réttindi farþega 

Athuga ber að reglurnar gilda ekki þegar pakkaferð er felld niður af öðrum ástæðum en þeim að flugi er aflýst.

Reglur

Eftirfarandi reglur gilda skv. reglugerð nr. 1048/2012 um flug sem aflýst er í þeim tilvikum þar sem brottför flugs er frá EES-ríki (óháð flugrekanda) og í flugi til EES-ríkis sé flugrekandi með útgefið flugrekstrarleyfi innan EES.

Aðstoð og skaðabætur

Farþega skal boðin aðstoð af hendi flugrekanda til að:

 • Fá farmiða sinn endurgreiddan fyrir þann hluta ferðarinnar sem ekki var farinn og fyrir einn eða fleiri hluta ferðarinnar sem farnir hafa verið ef flugið þjónar engum tilgangi lengur með hliðsjón af upprunalegri ferðaáætlun
 • Fá flug til baka til fyrsta brottfararstaðar eins fljótt og auðið er (ef við á)
 • Breyta flugleið með sambærilegum flutningsskilyrðum til lokaákvörðunarstaðar

Flugrekandi skal ennfremur bjóða farþegum máltíðir og hressingu og samskiptaaðstöðu farþegum að kostnaðarlausu.  Ef flugleið farþega er breytt þannig að áætlaður brottfarartími nýja flugsins er a.m.k. einum degi eftir áætlaða brottför flugsins sem var aflýst skal flugrekandi einnig bjóða hótelgistingu og flutning á milli flugvallar og gistiaðstöðu.

Farþegar eiga ekki rétt á skaðabótum frá flugrekanda í eftirfarandi tilvikum:

 • Flugi er aflýst a.m.k. tveimur vikum fyrir áætlaða brottför
 • Farþega er tilkynnt tveimur vikum til sjö dögum fyrir áætlaða brottför að fluginu sé aflýst og boðið að breyta flugleið sinni sem gerir farþega kleift að leggja af stað innan tveggja klst. fyrir áætlaðan brottfarartíma og komast á lokaákvörðunarstað innan fjögurra klst. eftir áætlaðan komutíma
 • Farþega er tilkynnt minna en sjö dögum fyrir áætlaða brottför að fluginu sé aflýst og boðið að breyta flugleið sinni sem gerir honum kleift að leggja af stað innan einnar klst. fyrir áætlaðan brottfarartíma og komast á lokaákvörðunarstað innan tveggja klukkustunda eftir áætlaðan komutíma

Skaðabætur

Upphæð skaðabóta er mishá eftir lengd flugs.

 • Flug <1.500 km – 250 evrur

 • Flug 1.500 til 3.000 km – 400 evrur

 • Lengri flug – 600 evrur

Ábyrgð flugrekanda

Ábyrgð flugrekanda getur fallið niður að hluta eða öllu leyti skapist „óviðráðanlegar aðstæður" sem ekki er mögulegt að afstýra, jafnvel þótt gerðar hafi verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. 

Dæmi um slíkar aðstæður:

 • Ótryggt stjórnmálasamband

 • Veðurskilyrði sem samræmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs

 • Öryggisáhætta

 • Verkföll sem haft geta áhrif á starfsemi flugrekanda.

 • Ákvarðanir flugumferðarstjórnar tengdar tilteknu loftfari.

Yfirlit yfir eftirlitsstofnanir innan ESB sem fara með eftirlit með framkvæmd laga er tengjast farþegavernd Eftirlitsstofnanir innan EES ríkjanna


Var efnið hjálplegt? Nei