Náttúruhamfarir
Sérstakar reglur gilda um réttindi flugfarþega þegar óviðráðanlegar aðstæður trufla flug. Til þeirra má t.d. telja eldgos, jarðskjálfta og flóð, veður, verkföll
Réttindi farþegans byggja á því hvort flugið fellur undir gildissvið EB reglugerðar nr. 261/2004. sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð 1048/2012.
Fellur þitt flug undir gildissvið reglugerðarinnar?
Reglugerðin á við um þitt flug ef:
-
Það er að öllu leyti innan EES eða Sviss, óháð uppruna flugrekanda
-
Brottför er frá flugvelli innan EES eða Sviss, óháð uppruna flugrekanda
-
Það kemur til lendingar á flugvelli innan EES eða Sviss frá landi utan þessara ríkja, svo framarlega sem flugrekandi er frá EES eða Sviss
Ef flug þitt fellur undir gildissvið reglugerðarinnar, hver er réttur þinn?
Ef kvörtun þín fellur undir einn af framangreindum flokkum átt þú kost á:
-
Endurgreiðslu farmiðans
-
Öðru flugi við fyrsta tækifæri, auk þjónustu meðan beðið er eftir flugi
-
Öðru flugi síðar þegar þér hentar, með fyrirvara um sætaframboð
Veljirðu að fá miðann þinn endurgreiddan strax og fyrstu upplýsingar um aflýsinguna koma fram átt þú ekki rétt á frekari aðstoð frá flugrekandanum.
Ef þú hefur valið annað flug við fyrsta tækifæri átt þú rétt á máltíðum, hressingu og hótelgistingu á meðan þú bíður eftir fluginu. Þetta á þó ekki við ef um upphaf ferðar er að ræða og þú átt kost á að bíða heimavið.
Ef þú hefur valið annað flug síðar meir (t.d. vegna þess að þú hefur ákveðið að hætta við ferðina á þessum tímapunkti) gilda engin tímamörk um hvenær ferðin skuli farin. Engin aukakostnaður á að falla á farþega þegar þessi leið er valin.
Eigin ráðstafanir – enginn réttur
Ef þú vilt ekki bíða eftir fluginu ber að hafa í huga að þú hefur ekki sjálfkrafa rétt á að ferðast eftir öðrum leiðum á kostnað flugrekanda.
Gerirðu þínar eigin ráðstafanir á ferðatilhöguninni án samþykkis flugrekanda er líklegt að hann neiti að taka þátt í aukakostnaði af þeim sökum.
Réttur á þjónustu (máltíðir, hressing, gisting, símtöl)
Samkvæmt reglugerðinni ber flugrekanda að bjóða þér, máltíðir, hressingu og gistingu eins og við á meðan beðið er eftir nýju flugi. Einnig ber honum skylda til að greiða allan ferðakostnað milli gististaðar og flugvallar. Það eru engar takmarkanir vegna gjaldmiðla eða tíma á framboði þessarar þjónustu.
Að auki þá ber flugrekanda að bjóða þér eftirfarandi án greiðslu:
-
Tvö símtöl
-
Að senda símbréf eða telex
-
Að senda tölvupóst
Kvartanir sem reglugerðin nær ekki yfir
Falli aflýst flug ekki undir gildissvið reglugerðarinnar er ráðlegt að skoða skilmála flugrekanda á heimasíðu hans. Líklegt er að þar sé kveðið á um endurgreiðslu eða annan flutning innan skynsamlegra tímamarka, án aukagjalds. Þó eru litlar líkur á að gert sé ráð fyrir þjónustu s.s. máltíðum og gistingu í skilmálum flugrekanda, þó ekki saki að leitast eftir þátttöku í kostnaðinum.
Hvernig skal bera sig að við kvartanir?
Óskað eftir endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna aflýsts flugs:
-
Fara eftir leiðbeiningum sem flugrekandi setur fram t.d. á heimasíðu sinni
-
Hafa samband við flugrekanda, sé skortur á leiðbeiningum, og senda upprunalegar kvittanir með beiðni um endurgreiðslu
Beri samskipti við flugrekanda ekki árangur er hægt að:
-
Leita aðstoðar hjá flugsviði Samgöngustofu
-
Senda Samgöngustofu afrit af samskiptum við
-
Fá leiðbeiningar vegna svara flugrekanda hjá Samgöngustofu í síma 480-6000 eða með því að senda tölvupóst á neytendur@samgongustofa.is
Fatlaðir og hreyfihamlaðir
Ef þú ert fatlaður eða hreyfihamlaður flugfarþegi er mögulegt að kvartanir þínar falli undir tvær ólíkar Evrópureglugerðir (EB) um réttindi flugfarþega:
-
Reglugerð nr. 1048/2012 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður
-
Reglugerð EB nr. 1107/2006, um vernd og aðstoð við fatlaða farþega í flugi
Samgöngustofa sér um framkvæmd beggja þessara reglugerða.