Flug með farþega gegn gjaldi

Ekki er heimilt að fljúga með farþega gegn gjaldi eða í ábataskyni hér á landi nema skv. gildu flugrekstrarleyfi fyrir flutningaflug. Frá þessari reglu eru þrjár undantekningar.

 Flug með farþega gegn gjaldi - skipting kostnaðar. 

Ekki er heimilt að fljúga með farþega gegn gjaldi eða í ábataskyni hér á landi nema skv. gildu flugrekstrarleyfi fyrir flutningaflug.

Frá þessari reglu eru þrjár undantekningar:

 

1. Flugkennsla

Flugskólum og flugkennurum er heimilt að taka gjald fyrir flugkennslu til útgáfu eða viðhalds flugréttinda sem falla undir starfsheimildir þeirra.

2. Skipting kostnaðar

Heimilt er að skipta kostnaði í einkaflugi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • Eingöngu er heimilt að skipta beinum kostnaði vegna þess flugs sem um ræðir. Undir beinan kostnað getur t.d. fallið eldsneytiskostnaður, flugvallagjöld eða leiga á vél. Viðhaldskostnaður, tryggingar og annar viðvarandi kostnaður telst hins vegar ekki til beins kostnaðar við flugið í þessum skilningi.
  • Flugmaður verður að taka þátt í skiptingu kostnaðar og má ekki hagnast á fluginu.
  • Ekki mega vera fleiri en sex um borð í loftfarinu að flugmanni meðtöldum.

3. Kynningarflug

Flugskólum og félögum sem stofnuð eru í þeim tilgangi að kynna sport- eða tómstundaflug er heimilt að taka gjald fyrir kynningarflug með eftirfarandi skilyrðum:

  • Fyrirtækið starfræki loftfarið á grundvelli eignarhalds eða tómaleigu.
  • Flugið skapi ekki hagnað, sem greiddur er út utan fyrirtækisins.
  • Flug með aðra en þá sem eru meðlimir í viðkomandi fyrirtæki má aðeins vera lítill hluti af starfsemi fyrirtækisins.

Flugöryggi og tryggingar


Flutningaflug er einn allra öruggasti samgöngumáti sem til er og eru flugrekendur sem starfa á grundvelli flugrekstrarleyfis háðir ströngu eftirliti og miklar kröfur eru gerðar til hæfni áhafna og viðhalds loftfara.

Í einkaflugi gilda vægari öryggiskröfur og er flugöryggisstig allt annað. Í flutningaflugi er einnig almennt mun víðtækari tryggingavernd en í einkaflugi.

Samgöngustofa beinir til aðila sem taka þátt í þeirri starfsemi sem fjallað er um hér að framan að kynna vel fyrir farþegum sínum mismunandi öryggisstig í einka- og flutningaflugi og gera farþegum sínum grein fyrir hvaða tryggingavernd er til staðar í viðkomandi flugi.


Var efnið hjálplegt? Nei