Einkaflugmaður

Til að fá útgefið einkaflugmannsskírteini þarf að ljúka bók- og verklegu námi hjá flugskóla (viðurkenndu eða yfirlýstu þjálfunarfyrirtæki) sem hefur heimild til að kenna fyrir útgáfu einkaflugmannsskírteinis

Um bóklegt nám

Bóklegt nám fer fram skv. sérstakri námsskrá sem inniheldur níu próffög: 

  • 010-Air law (Lög og reglur um loftferðir)
  • 020-Human performance (Mannleg geta og takmörk hennar)
  • 030-Meteorology (Flugveðurfræði)
  • 040-Communication (Flugfjarskipti)
  • 050-Principles of flight (Flugeðlisfræði)
  • 060-Operational procedures (Verklagsreglur í flugi)
  • 070-Flight performance and planning (Afkastageta og áætlanagerð)
  • 080-Aircraft general knowledge (Almenn þekking á loftförum)
  • 090-Navigation (Flugleiðsaga)

Að loknu bóklegu námi hjá flugskóla þarf nemandinn að standast bókleg einkaflugmannspróf hjá Samgöngustofu. Útskrift úr skólaprófi hjá flugskóla gildir í 12 mánuði í hverju fagi og þarf nemandi að hefja próf Samgöngustofu í því fagi innan þess tíma. Prófunum þarf að ljúka með 75% árangri að lágmarki í hverri námsgrein.

Nemar hafa 18 mánuði til að ljúka prófunum talið frá enda þess mánaðar sem fyrsta próf var þreytt. Próftaki fær að hámarki fjórar tilraunir í hverju próffagi.

Útskrift úr bóklegum einkaflugmannsprófum gildir í 24 mánuði til að ljúka verklegu einkaflugmannsnámi. Þeir sem fullnægja ekki einhverjum framangreindra skilyrða þurfa að fá endurþjálfun hjá flugskóla og endurtaka bókleg próf Samgöngustofu.

Um verklegt nám

Verklegt einkaflugmannsnámskeið á flugvél samanstendur af að lágmarki 45 fartímum, þar af 25 fartímum með kennara og tíu einflugstímum. Að loknu verklegu námi þarf að standast verklegt færnipróf með prófdómara. Bóklegum prófum þarf alltaf að vera lokið áður en leyfilegt er að fara í verklega prófið. 

Áður en flugnemi fer í sitt fyrsta einflug þarf hann að hafa náð 16 ára aldri og vera handhafi 2. flokks heilbrigðisvottorðs. Lágmarksaldur fyrir útgáfu einkaflugmannsskírteinis er 17 ár.

Réttindi einkaflugmanna

Réttindi handhafa einkaflugmannsskírteinis eru að stjórna þeim flugvélum sem hann hefur réttindi á án þess að taka greiðslu fyrir. Til að mega flytja farþega þurfa flugmenn áður að hafa framkvæmt þrjú flugtök og þrjár lendingar á síðustu 90 dögum á viðkomandi tegund loftfars. Réttindi skv. einkaflugmannsskírteini eru háð því að flugmaður hafi einnig í gildi heilbrigðisvottorð.

Athuga ber að einkaflugmönnum er óheimilt að flytja farþega gegn gjaldi. 

T.d. er einkaflugmanni óheimilt með öllu að auglýsa flug eða gefa til kynna á einhvern hátt að hann bjóði uppá farþega-, útsýnis- eða verkflug gegn gjaldi. Öll slík starfsemi er leyfisskyld. Í einkaflugi er þó heimilt að skipta eldsneytiskostnaði enda fellur einn hluti kostnaðar á flugmanninn sjálfan sem þarf að geta sýnt fram á það við Samgöngustofu.


Var efnið hjálplegt? Nei