Prófreglur

Eftirfarandi reglur gilda í bóklegum prófum og prófsýningum

Það er á ábyrgð próftaka að kynna sér prófreglur Samgöngustofu og fylgja þeim.

Próftaki verður að hafa lokið skólaprófi með fullnægjandi árangri (75%) áður en hann skráir sig til prófs hjá Samgöngustofu.

Hafi próftaki áður reynt próftöku bóklegra prófa hjá Samgöngustofu og fallið á prófunum í heild sinni skal nemandi hafa samband við flugskóla og fá mat á upprifjun og/eða endurþjálfun á námsefni eins og þörf er á.  Staðfesting þess efnis frá flugskóla þarf að berast Samgöngustofu áður en nemanda er veittur próftökuréttur og fær að þreyta bókleg próf Samgöngustofu á ný.

Fjölföldun eða dreifing á prófi eða spurningum úr prófi er með öllu óheimil. Próf eru trúnaðarmál á milli próftaka og Samgöngustofu.

Próftakar skulu vera kurteisir í hegðun gagnvart yfirsetufólki og öðru starfsfólki Samgöngustofu og fara eftir fyrirmælum þeirra í einu og öllu. 

Prófstjóra og yfirsetufólki er heimilt að stöðva próf nemanda og víkja úr prófi hlíti hann ekki fyrirmælum sem honum eru gefin eða fer ekki eftir prófreglum.

Neysla á matvælum er ekki leyfileg í prófstofu. Leyfilegt er að vera með drykki í flöskum með tappa á.

Próftakar skulu hreinsa eftir sig rusl og skilja hreint við sig í prófstofu og biðsal eftir að prófum er lokið


Áður en farið er í próf:

Próftaki verður að framvísa skilríkjum, slökkva á símum, snjallúrum og öðrum raftækjum og skilja eftir hjá yfirsetumanni.

Próftökum ber að skilja eftir úlpur, derhúfur, húfur, töskur og pennaveski hjá yfirsetumanni.

Forritanlegar reiknivélar eru ekki leyfðar.  Undantekning á þeirri reglu er ef yfirsetumaður hefur yfirfarið og endurstillt reiknivélina með „factory reset“. Ekki er tekin ábyrgð á reiknivélum nemenda eftir að stillt hefur verið á „factory reset“.

Það er algjörlega á ábyrgð próftaka að velja rétt próffag og tungumál í upphafi prófs.  Ekki er mögulegt að leiðrétta slíkt eftir að próf er hafið og mun einkunn úr prófi gilda.


Á meðan prófi stendur:

Óheimilt er að skrifa á krassblöð áður en ýtt er á „start“-hnapp og próf hefst.

Öll samskipti milli próftaka á meðan prófi stendur eru bönnuð.

Próftaki skal eingöngu horfa á sinn eigin tölvuskjá á meðan prófi stendur.

Aðeins skal nota þau hjálpargögn í prófi sem Samgöngustofa hefur gefið leyfi fyrir.

Fylgigögn í próf

Próftakar mega koma með eftirfarandi fylgigögn í próf:

Almennt

 • Skriffæri

 • Óforritanleg reiknivél

 • Flugreiknistokkur (mekkanískur/óforritanlegur)

 • Gráðubogi (plotter)

 • Áttaviti og sirkill

 • Reglustika

ATPL

 • Mass and Balance: CAP 696

 • Flight Planning & Monitoring: Jeppesen General Student Pilot Route Manual (GSPRM 2017) og CAP 697

 • General Navigation: Jeppesen General Student Pilot Route Manual (GSPRM 2017)

 • Performance: CAP: 698

PPL

 • Sjónflugskort í 070-Flight performance & planning og 090-Navigation.

Öll önnur gögn eru óheimil.

Fylgigögn sem próftaki kemur með í próf mega ekki innihalda lausnir, yfir- eða undirstrikanir eða nokkurs konar glósur. Skyndiskoðanir verða framkvæmdar af yfirsetufólki. Noti próftaki fylgigögn sem ekki uppfylla ofangreind skilyrði í prófi verða þau tekin af próftaka og getur próftaki átt yfir höfði sér 12 mánaða próftökubann hjá aðildaríkjum EASA fyrir svindl.

Ekki er heimilt að opna önnur forrit eða vafra í tölvu á meðan prófi stendur.


Eftir próf:

Próftaki skal alltaf merkja krassblöð með nafni og skila inn til yfirsetumanns eftir hvert próf.

Skráningarblaði og fylgigögnum skal ávallt skila til yfirsetumanns þegar síðasta próf dagsins hefur verið klárað.


Brot á ofangreindum reglum getur leitt til brottvísunar úr prófi og ógildingu einstaka prófs eða allra prófa í prófsetu.

Eftirlitsmyndavélakerfi er í prófstofu.

Verði próftaki uppvís um svindl varðar það ógildingu á öllum einkunnum hans hjá Samgöngustofu og 12 mánaða próftökubann í öllum aðildarríkjum EASA.

Próftaki telst hafa lokið bóklegum prófum Samgöngustofu standist hann próf í öllum fögum með lágmarkseinkunn 75%.  Einkunn er gefin með tveimur aukastöfum (t.d. 75,00).  Einkunnir eru ekki námundaðar upp og ekki er dregið niður fyrir röng svör.


Tímafrestir og önnur skilyrði vegna bóklegra prófa

 • Próftaka ber að ljúka öllum prófum með lágmarksárangri 75% innan 18 mánaða
 • Próftaki fær að hámarki 4 tilraunir fyrir hvert stakt próf
 • Próftaki fær að hámarki 6 prófsetur (sittings) til þess að ljúka öllum prófum

Athuga ber að ATPL útskrift úr bóklegum prófum Samgöngustofu gildir til útgáfu CPL(A) og IR(A) í 36 mánuði, frá og með þeim degi sem próftaki lýkur öllum bóklegum prófum. Útskrift úr bóklegum PPL prófum gildir til útgáfu PPL(A) í 24 mánuði, frá og með þeim degi sem próftaki lýkur öllum bóklegum prófum.


Var efnið hjálplegt? Nei