ATVIK-sjómenn
Hvað er ATVIK-sjómenn?
ATVIK- sjómenn er rafrænt og miðlægt atvikaskráningarkerfi á netinu sem aðstoðar útgerðir við að halda utan um öll atvik sem snúa að öryggi í vinnuumhverfi sjómanna og slysum sjómanna um borð í skipum þeirra.
Sjómenn geta skráð eftirfarandi atvik sem snýr að öryggi og aðbúnaði þeirra um borð:
- Ábendingar um t.d. hættur í vinnuumhverfi og óöruggur búnaður
- Næstum slys
- Minniháttar slys
- Fjarveruslys
- Ógn, t.d. einelti, kynferðislega áreitni og ofbeldi
Virk skráning atvika í ATVIK-sjómenn myndar mikilvægar upplýsingar og tölfræði sem nýtist í gagnadrifnu forvarnastarfi hjá útgerðum. Það gerir allt forvarnastarf útgerða markvissara og stuðlar að öruggari vinnuumhverfi fyrir sjómenn og fækkun slysa um borð í skipum.
Hægt er að tilkynna slys á sjó og sjóatvik á vef RNSA:
Notendaþjónusta
Aðstoð og frekari upplýsingar um kerfið er hægt að fá með því að senda tölvupóst á netfangið atviksjomenn@samgongustofa.is
Handbók
Hér má nálgast handbók fyrir kerfið.
Kennsluefni
Kynningarefni um kerfið má nálgast hér.
https://www.youtube.com/watch?v=1ixJPyE7IL4
Notagildi fyrir útgerðir og sjómenn
ATVIK-sjómenn er í boði fyrir allar útgerðir og þeim að kostnaðarlausu. Útgerðir sem vilja nota atvikaskráningarkerfið verða stofnaðar sem stór-notendur í kerfinu og fá sinn eiginn skráningarhlekk (vefslóð) til að nota um borð í sínum skipum. Þá geta útgerðir nýtt sér gagnvirk mælaborð og greiningartól fyrir öll atvik sem skráð eru í kerfið. Sömuleiðis geta þær tilkynnt öll slys á sjómönnum rafrænt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa og kallað fram tilkynningareyðublöð til Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélaga.
Til að tengjast ATVIK-sjómenn þurfa útgerðir að senda tölvupóst á atviksjomenn@samgongustofa.is og haft verður samband um næstu skref.
Sjómenn og minni útgerðir
Einyrkjar eða minni útgerðir geta tilkynnt slys til sjós rafrænt á heimasíðu Rannsóknarnefndar samgönguslysa gegnum ATVIK-sjómenn.
Sagan
ATVIK-sjómenn var þróað árið 2017 af tryggingafélaginu VÍS í samvinnu við Slysavarnaskóla sjómanna, Rannsóknarnefnd sjóslysa og nokkra af stærri útgerðum í viðskiptum hjá VÍS.
Tilgangur atvikaskráningarforritsins var að aðstoða útgerðir við að fá betri yfirsýn á atvikum um borð í fiskiskipum sínum sem sneru að öryggi í vinnuumhverfi og vinnuslysum sjómanna.
Markmiðið með kerfinu var að efla öryggi í vinnuumhverfi sjómanna og fækka slysum um borð í fiskiskipum hjá útgerðum í viðskiptum hjá VÍS.
Árið 2020 nálgaðist Samgöngustofa VÍS um að ATVIK-sjómenn yrði aðgengilegt öllum útgerðum í landinu þar sem það hafði sýnt fram á notagildi sitt hjá útgerðum í tryggingum hjá VÍS.
Á sjómannadaginn árið 2021 ákvað VÍS að gefa Rannsóknarnefnd samgönguslysa ATVIK-sjómenn til eignar og reksturs. Þetta var gjöf frá VÍS til íslenskra sjómanna, samfélaginu til heilla. Afhendingin fór fram um borð í skólaskipinu Sæbjörgu hjá Slysavarnaskóla sjómanna.
Í kjölfarið fór fram mikil undirbúningsvinna að setja ATVIK-sjómenn í nýtt rekstrarumhverfi ásamt þróun á gagnvirku mælaborði sem veitir útgerðum yfirsýn yfir öll skráð atvik og slys, sem eiga að nýtast strax til að greina áherslur í forvarnastarfi sjómanna. Sömuleiðis að hægt yrði að tilkynna slys á sjómönnum rafrænt úr kerfinu til Rannsóknarnefnd Samgönguslysa.
Nýtt ATVIK-sjómenn fór í loftið í október 2022 sem er aðgengilegt öllum útgerðum til notkunar og þeim að kostnaðarlausu. Sömuleiðis geta sjómenn og minni útgerðir tilkynnt slys á sjómönnum rafrænt gegnum forritið á heimasíðu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Til er orðinn einn sameiginlegur gagnagrunnur um atvik og slys til sjós sem mun mynda einstaka tölfræði sem auðveldar alla greiningarvinnu til að stuðla að gagnadrifnu forvarnastarfi í öryggimálum sjómanna til framtíðar.
Persónuvernd
ATVIK-sjómenn er hannað og þróað í samræmi við kröfur og ákvæði Persónuverndarlaganna: 90/2018: Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga | Lög | Alþingi (althingi.is)
ATVIK-sjómenn er hýst í miðlægum gagnagrunni hjá viðurkendum hýsingaraðila (ISO 27001) varðandi hýsingu persónugreinandi gagna í samræmi við Persónuverndarlögin.
Öll gögn í kerfinu eru dulkóðuð.
Öflug aðgangsstýring er að öllum gögnum með rafrænum skilríkjum þannig að viðkomandi útgerðir sjá einungis sín eigin gögn.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur einungis aðgengi að tilkynntum sjómannaslysum til þeirra.
Samgöngustofa og Rannsóknarnefnd hafa aðgengi að ópersónugreinandi tölfræðileglegum upplýsingum úr gagnagrunni ATVIK-sjómenn til að nýta í gagnadrifið forvarnastarf sem gengur út á að efla öryggi í vinnuumhverfi sjómanna og fækka slysum til sjós.
Tilgangur og markmið
Tilgangur miðlæga atvikaskráningarkerfisins ATVIK-sjómenn er að búa til einn sameiginlegan gagnagrunn sem veitir heildarsýn á atvikum til sjós sem snúa að öryggi sjómanna og mynda þannig einstaka tölfræði til að nýta í forvarnastarfi í öryggismálum sjómanna.
Markmiðið er að efla öryggi í vinnuumhverfi sjómanna og fækka slysum til sjós með gagnadrifnu forvarnastarfi. Reglulega mæla og meta árangur af markvissum og gagnadrifnum forvarnaaðgerðum sem gripið hefur verið til út frá skráningum í ATVIK-sjómenn.
Aðstoð og frekari upplýsingar um kerfið er hægt að fá með að senda tölvupóst á netfangið atviksjomenn@samgongustofa.is