Aðgengilegur og notendavænn vefur Samgöngustofu

20.5.2014

Samgöngustofa hefur opnað nýjan vef sem tekur fyrst og fremst mið af þörfum viðskiptavina. Vefurinn leysir af hólmi vefi þriggja stofnana: Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar og Umferðarstofu. Allir þessir vefir voru umfangsmiklir enda þjónusta sameinaðrar stofnunar víðfeðm. Mikil áhersla var á tiltekt í efni, gera vefinn aðgengilegan og notendavænan.

Við hönnun vefsins var farið í ítarlega þarfagreiningu og rýni á notkun vefja eldri stofnana. Megináherslan var lögð á mikilvægustu verkefnin sem notendur þurfa að sinna. Uppbygging og hönnun vefsins tekur mið af því. Eldri vefir og nýr vefur voru prófaðir af notendum á ýmsum stigum í hönnunarferlinu sem vonandi skilar góðri upplifun til notenda.

Mikil áhersla er á greitt aðgengi að eyðublöðum, lögum og reglugerðum. Leitin er snjöll og tekur mið af ólíkri hugtakanotkun og orðavali notenda. Leitin gefur notendum ráðleggingar um líklegustu niðurstöður. Vefurinn er snjall, hann lagar sig að öllum tækjum; snjallsímum og spjaldtölvum.

Stofnunin hefur opnað betur aðgengi að gögnum um ökutæki, loftför og skip þar sem hægt er að finna upplýsingar um skráðar flugvélar og önnur loftför, bíla og önnur ökutæki, skip og önnur skráð fley.

Markmið Samgöngustofu er að gera viðskiptavinum í auknum mæli kleift að afgreiða sig sjálfir með erindi. Svonefnt “Mitt svæði” á vef stofnunarinnar mun gegna lykilhlutverki í aukinni rafrænni þjónustu. Í dag er m.a. hægt að ganga frá kaupum og sölum á ökutækjum, fá yfirsýn um ökutæki í eigu landsmanna, panta skráningarnúmer og endurnýja einkanúmer.

Það er von stofnunarinnar að nýr vefur geti stuðlað að bættri þjónustu og aukinni ánægju viðskiptavina. Við hlustum á óskir notenda vefsins og þróum vefinn áfram í takt við ábendingar sem hægt er að senda í gegnum síður vefsins. Notendur geta gefið álit sitt á efni vefsins en Samgöngustofa er fyrsta opinbera stofnunin sem tekur slíkt ábendingakerfi í notkun.

Áfram verður unnið að bættri rafrænni þjónustu við viðskiptavini Samgöngustofu í góðu samstarfi við notendur vefsins.