Öruggur akstur eldri borgara

4.11.2015

Félag eldri borgara í Reykjavík, í samvinnu við Samgöngustofu, heldur upprifjunarnámskeið í öruggum akstri fyrir eldri ökumenn. Meginmarkmið námskeiðsins er að auka umferðaröryggi eldri ökumanna og viðhalda möguleikum þeirra til að komast akandi milli staða. Í framhaldinu er stefnt að því að boðin verði upprifjunarnámskeið fyrir ökumenn 65 ára og eldri víðar á landinu. Engin próf verða og er öllum frjálst að taka þátt. Þetta fyrsta námskeið er gjaldfrjálst og opið öllum eldri borgurum.

Fyrsta námskeiðið fyrir eldri ökumenn verður 10., 12. og 16. nóvember kl. 14-16 í félagsheimili Félags eldri borgara Stangarhyl 4. Farið verður yfir helstu áhættuþætti auk þess  sem boðið verður upp á stuttan æfingaakstur undir leiðsögn. Engar kvaðir fylgja þátttökunni.