Göngum í skólann hleypt af stokkunum
Átakið „Göngum í skólann“ var sett við hátíðlega athöfn í Laugarnesskóla í gær, 10.september. Árlega taka milljónir barna þátt í „Göngum í skólann" verkefninu í yfir fjörutíu löndum víðs vegar um heim. Ísland tekur nú þátt í áttunda sinn en bakhjarlar verkefnisins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Ríkislögreglustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landlæknisembættið og landssamtökin Heimili og skóli.
Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla.
Viðstaddir athöfnina voru meðal annars Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að ógleymdri Sollu stirðu.