Göngum í skólann og nýr Umferðarvefur

Til að efla öryggi og virkan ferðamáta skólabarna

9.9.2015

Í morgun hleypti Ólöf Nordal innanríkisráðherra verkefninu Göngum í skólann af stokkunum en þetta er níunda árið sem verkefnið er starfrækt hér á landi. Auk þess var opnuð og kynnt ný útgáfa af vefnum umferd.is sem er Umferðarvefur ætlaður nemendum, kennurum og foreldrum.

Nokkrar myndir frá setningu "Göngum í skólann" Göngum í skólann er samstarfsverkefni Samgöngustofu, ÍSÍ, Ríkislögreglustjóra, Landlæknis, menntamálaráðuneytis, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Heimili og skóla. Um er að ræða evrópskt verkefni sem miðar að því að hvetja grunnskólanemendur til að ganga, hjóla eða velja sér annan virkan ferðamáta á leið sinni til og frá skóla. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða en jafnframt eykur þetta færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. 

Umferðarvefurinn umferd.is er samvinnuverkefni Samgöngustofu og Grundaskóla á Akranesi, móðurskóla umferðarfræðslu.

Umferðarvefurinn inniheldur mörg fræðandi verkefni þar sem umferðarfræðsla er tvinnuð saman við aðrar námsgreinar sem kenndar eru í grunnskóla. Eins og fyrr sagði er á vefnum fjölbreytt efni sem gagnast kennurum og foreldrum til að fræða börnin á markvissan og árangursríkan hátt um umferðaröryggi.  Það er margt mjög áhugavert og gagnlegt á síðunni en meðal nýjunga má nefna bókahilluna þar sem nemendur geta fundið allar bækurnar um Krakkana í Kátugötu og æft sig í lestri um leið og þeir fræðast um mikilvægar umferðarreglur. Einnig er hægt að hlusta á upplestur Sigrúnar Eddu Björnsdóttur leikkonu á sögunum.