Hjólreiðakeppni á þjóðvegum landsins

23.6.2015

Alþjóðlega hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon hófst í dag og stendur til 26. júní. Á annað hundrað lið taka þátt að þessu sinni og því má gera ráð fyrir verulegri fjölgun hjólreiðafólks á þjóðvegum landsins næstu daga. Mikilvægt er að allir vegfarendur, jafnt hjólandi sem akandi, sýni gagnkvæma tillitssemi á meðan á keppninni stendur.

Að gefnu tilefni minnir Samgöngustofa þá ökumenn sem fylgja keppendum eftir á bílum á mikilvægi þess að stöðva bifreiðar ekki á miðjum vegi en nýta þess í stað vegaxlir eða áningastaði. Að sama skapi biðjum við aðra vegfarendur um að vera vel vakandi í umferðinni þegar farið er um þau svæði sem hjólreiðamennirnir eru á hverju sinni. Áríðandi er að hægja vel á og gæta sérstakrar varkárni þegar ekið er fram úr eða hjólreiðafólki mætt á vegum sem oft á tíðum eru nokkuð þröngir.