Könnun um öryggi og hagi sjómanna

10.6.2015

Að beiðni Samgöngustofu vann Gallup könnun um öryggi og hagi sjómanna á tímabilinu desember 2014 – janúar 2015. Í úrtakinu voru 1300 sjómenn og svöruðu 750 sjómenn sem er tæplega 58% svarhlutfall. Hringt var í þátttakendur eða þeim sendar spurningar rafrænt. Þátttakendur í könnuninni starfa á skipum af mismundandi stærðum og gerðum þar sem gerðar eru mismunandi kröfur varðandi öryggismál. Sjómennirnir sem tóku þátt starfa á skuttogurum, fiskiskipum undir 15 brúttótonnum, fiskiskipum yfir 15 brúttótonn, vinnuskipum og farþegaskipum. Flestir sjómennirnir hafa starfað 11 – 20 ár á sjó. 

Sjómennska er krefjandi og mikilvægt að öryggi sjómanna sé eins gott og verður á kosið. Tilgangur þess að kanna líðan og öryggi sjómanna er að nýta niðurstöðurnar til úrbóta og hvata til aðgerða. Meðal annars var spurt um öryggi um borð, slys og áhættumat, ánægju í starfi, óhöpp og orsakir þeirra. Einnig vorum sjómenn spurðir um eigin heilsu og líðan um borð. 

Niðurstöðurnar sýna að miklar framfarir hafa orðið frá fyrri könnunum í öryggismálum sjómanna og hefur slysum og óhöppum fækkað jafnt og þétt. Því má þakka bættum skipakosti,  aukinni menntun sjómanna og viðhorfsbreytingu til öryggismála um borð í skipunum. Einnig hefur aðbúnaður um borð sífellt orðið betri.

Helstu niðurstöður

Það vekur athygli í þessari könnun að undirmenn á skipum telja að öryggismálum sé ábótavant og það skorti fræðslu og kynningu fyrir nýliða. Skipstjórar telja öryggismálin séu í góðu horfi og að það sé ekki skortur á öryggisráðstöfunum. Fram kemur að óhöpp og slys um borð verða vegna athugunarleysis/þreytu og skorts á kunnáttu. Sjómenn finna oft fyrir mikilli þreytu og streitu í starfi og eiga 23% svarenda við svefnvandamál að stríða. 44% þátttakenda í könnuninni geta ekki samþætt vinnu og fjölskyldulíf. Sjómenn meta heilsufar sitt almennt gott og eru mjög ánægðir í starfi sínu. Aðspurðir hversu ánægðir þeir eru í starfi sínu segjast 86,4 % vera mjög ánægðir í starfi.

Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar í heild.