Landsliðið í átaki með Samgöngustofu

9.6.2015

Í morgun var fyrsta æfing íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fyrir væntanlegan leik gegn Tékkum þann 12. júní. Við upphaf æfingarinnar afhenti Ása Sigurjóna Þorsteinsdóttir 22 ára leikmönnun íslenska liðsins sérstakar treyjur sem með áhrifamiklum hætti virka sem hvatning til allra um notkun öryggisbelta. Um er að ræða samstarfsverkefni KSÍ og Samgöngustofu. 
Landsliðið í búningunum Ása var17 ára gömul þegar hún lenti í umferðarslysi þar sem tvær vinkonur hennar létust en sjálf var hún í lífshættu í langan tíma eftir slysið. Þær voru ekki í bílbeltum en ökumaðurinn sem var spenntur í belti slasaðist ekki. Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður liðsins sagði það sanna ánægju fyrir liðið að standa að þessu átaki og lagði áherslu á að allir notuðu öryggisbelti alltaf – allstaðar.

Gylfi Sigurðsson landsliðsmaður í búningnum
Það kann að þykja undarlegt að reka þurfi sérstakan áróður fyrir notkun öryggisbelta því ætla má að flestir ef ekki allir noti belti. Reyndar eru fáir sem láta það gerast að nota ekki öryggisbelti og þeir eru í mikilli lífshættu borið saman við aðra. Þessir fáu sem ekki nota öryggisbelti alltaf eru 46% þeirra sem létust í bílslysum á undanförnum árum, samtals 16 manns af 35. Það er því ljóst að mikill ávinnungur yrði af því ef allir temdu sér að nota öryggisbeltið í hvert sinn sem ferðast er með bifreið.