Samgöngustofa flytur

11.9.2014

Þann 15. september munu starfsstöðvar Samgöngustofu á höfuðborgarsvæðinu flytja í nýtt, sameiginlegt húsnæði á horni Háaleitisbrautar og Ármúla. Samhliða þessum flutningum verður afgreiðslutími stofnunarinnar samræmdur og verður hann frá kl. 9:00-16:00. Er það mikilvægt skref í áætlunum um greiða og samstillta þjónustu.

Vegna flutninganna munu skrifstofur okkar og vefkerfi Samgöngustofu loka tímabundið frá kl. 14:00, föstudaginn 12. september. Opnað verður í hinum nýju húsakynnum að morgni þriðjudagsins 16.september en vonast er til að vefkerfi verði komin í gang að morgni mánudagsins 15. september svo hægt sé að eiga rafræn viðskipti.

Fleiri breytingar hafa orðið hjá Samgöngustofu því 6. ágúst sl. urðu forstjóraskipti hjá stofnuninni. Þórólfur Árnason tók við af Hermanni Guðjónssyni sem mun áfram sinna ráðgjafastörfum á vegum Samgöngustofu. Þórólfur lauk M.Sc. prófi í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn árið 1981 og B.Sc. prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Hann hefur á síðustu árum starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi, verið stjórnarformaður Isavia og stýrði sameiningu Flugstoða og Keflavíkurflugvallar við stofnun Isavia árið 2010. Áður hafði Þórólfur m.a. verið forstjóri Skýrr og Tal og verið borgarstjóri í Reykjavík á árunum 2003-2004.

Nýtt heimilisfang Samgöngustofu er Ármúli 2, 108 Reykjavík.