Umferðarþing og samgönguþing verða haldin 19. febrúar

11.2.2015

Umferðar- og samgönguþing verða haldin fimmtudaginn 19. febrúar í Hörpu í Reykjavík.  Þingin eru skipulögð af innanríkisráðuneytinu, samgönguráði og Samgöngustofu. Umferðarþingið verður haldið milli klukkan 9 og 12.15 en samgönguþingið stendur frá klukkan 13.15 til 17.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra mun ávarpa samgönguþingið í upphafi og síðan flytja sérfræðingar erindi á báðum þingunum. Gefinn verður góður tími til umræðna og fyrirspurna.

Umferðarþing

Meðal erinda á umferðarþingi má nefna erindi Guðbjargar Kristínar Ludvígsdóttur læknis þar sem m.a. er svarað spurningunni hvort fatlaðir vegfarendur búi við sama öryggi í umferðinni og aðrir. Kristín Sigurðardóttir læknir og Ágúst Mogensen rannsóknarstjóri umferðarslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa munu m.a. fjalla um þróun umferðarslysa, áhrifavalda og hvernig orsakir og eðli umferðarslysa hafa breyst. Kynntar verða niðurstöður rannsóknarskýrslu um slys á hjólandi vegfarendum (óvörðum vegfarendum) og  umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga.

Dagskrá umferðarþings.

Samgönguþing

Aðal umfjöllunarefni samgönguþings er samgönguáætlun 2015 til 2026 og munu bæði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, og Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs, fjalla um áherslur, stefnu og meginmarkmið áætlunarinnar. Einnig verður fjallað um umhverfismat hennar og fjármögnun verkefna. Í lokin verða pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa samgönguráðs. 

Dagskrá samgönguþings.