Úttekt á siglingaöryggi Íslands í umsjón Samgöngustofu

19.1.2017

Í gær var haldinn hjá Samgöngustofu fyrsti fundurinn til undirbúnings á umfangsmikilli úttekt sem  Alþjóðasiglingamálastofnunin IMO hefur fyrirhugað hér á landi.

Áætlun IMO nær til allra 172 aðildarríkja hennar, þar á meðal Íslands. Úttektinni er ætlað að greina hvernig ríkin hafa innleitt og hrint í framkvæmd skyldum og kröfum þeirra alþjóðasamþykkta á sviði siglingamála sem þau eru aðilar að. Þessar skyldur hefur Ísland, eins og önnur ríki, gengist undir til að tryggja siglingaöryggi og koma í veg fyrir mengun frá skipum.

Úttektin nær til fjölmargra íslenskra stofnana, auk Samgöngustofu, sem hafa með einum eða öðrum hætti með siglingaöryggi og umhverfisvernd hafsins að gera. Þar má telja innanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Landhelgisgæslan, Vegagerðin, Umhverfisstofnun, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Póst- og fjarskiptastofnun, Neyðarlínan og Veðurstofan.

Ef áætlanir standast verða 20-25 ríki tekin út árlega. Samkvæmt þessu mun úttektarteymi IMO heimsækja Ísland um mitt ár 2019. Þó ætla mætti að nægur tími sé til stefnu hefur undirbúningurinn nú þegar staðið yfir um nokkra hríð. Samgöngustofu var falin verkefnisstjórn hérlendis og öll samskipti við IMO. Meðal verkefna fyrir úttektina  er nákvæm yfirferð á innleiðingu alþjóðaregluverks og svörun ítarlegra spurningalista. Reikna má með að gera þurfi einhverjar breytingar á löggjöf á sviði siglingamála áður en úttektin fer fram. Engu að síður má búast við að bent verði á frávik sem kalla á úrbætur.

IMSAS-18012017 Fulltrúar þeirra ráðuneyta og stofnana sem taka þátt í úttekinni fjölmenntu á fundinn.