Úttekt á vegum EASA

27.4.2015

Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hefur nýlokið reglubundinni úttekt á flugrekstrardeild og þjálfunar- og skírteinadeild Samgöngustofu. Úttektin stóð yfir dagana 19.-24. apríl sl. og komu hingað til lands 8 fulltrúar EASA vegna verkefnisins. Farið var yfir framkvæmd eftirlits á íslenskum flugrekendum og flugskólum auk vottana sem eru gefnar út af Samgöngustofu. Ennfremur skoðaði EASA gæðakerfi og öryggisstjórnunarkerfi stofnunarinnar.
Í tengslum við úttektina heimsótti eftirlitsfólk EASA tvo flugrekendur og einn flugskóla sem þau völdu sjálf, til staðfestingar á starfsemi Samgöngustofu.

Úttektin gekk vel og og á lokafundi lýsti fulltrúi EASA því yfir að frammistaða Samgöngustofu í þessum verkefnum væri yfir meðallagi allra landa innan EASA. Lokaskýrsla með tillögum að eftirfylgni mun liggja fyrir nú í sumar.