Vefur Samgöngustofu tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna

21.1.2015

Samtök vefiðnaðarins hafa tilnefnt vef Samgöngustofu til úrslita í tveimur flokkum í árlegri samkeppni um bestu vefi landsins. Vefurinn er tilnefndur í flokkunum „Besti opinberi vefurinn“ og „Aðgengilegasti vefurinn“.  

Samgöngustofa hóf starf sitt 1. júlí 2013 við sameiningu Umferðarstofu, Siglingastofnunar, Flugmálastjórnar og hluta af starfsemi Vegagerðarinnar. Það var frá fyrsta degi mikilvægt að sameina vefþjónustu og upplýsingaveitu þeirra stofnana sem sameinuðust undir nafni Samgöngustofu 1. júlí árið 2013. Lögð var áhersla á að heimsíðan væri notendavæn og gæti þjónað fjölbreyttum og ólíkum þörfum viðskiptavina með sem aðgengilegustum hætti.  Jafnframt var mikil áhersla lögð á að síðan væri hönnuð og forrituð þannig að hún væri aðgengilega ólíkum formum vefsamskipta. 

Undir dyggri stjórn Sigurjóns Ólafssonar hjá  Funksjón vefráðgjöf var gerð vönduð þarfagreining og veftré sem starfsmenn Hugsmiðjunnar fengu svo í hendur og hönnuðu og settu upp þann vef sem hér má sjá.  

Af viðbrögðum viðskiptavina og starfsmanna Samgöngustofu má ætla að vefurinn hafi náð yfirlýstu takmarki. Stór hluti þeirrar þjónustu sem Samgöngustofa veitir á sér stað á vefnum og mun hlutverk og mikilvægi vefsins vaxa á komandi árum. 

Árangurinn af þessari vinnu fæst m.a. staðfestur í þessum tilnefningum en úrslit verða kunngerð 30. janúar næstkomandi.

vefsíða mynd