Vefur Samgöngustofu valinn Besti opinberi vefurinn 2014
Vefur Samgöngustofu, www.samgongustofa.is, vann í gærkveldi, 30.janúar, til verðlauna sem „Besti opinberi vefurinn“ á Íslensku vefverðlaununum 2014. Viðburðurinn er eins konar uppskeruhátíð sem SVEF, Samtök vefiðnaðarins, stendur fyrir árlega en þar eru veittar viðurkenningar fyrir þá íslensku vefi sem þykja hafa skarað fram úr á árinu í hinum ýmsu flokkum.
Vefur Samgöngustofu var unninn í samstarfi við Hugsmiðjuna og Funksjón vefráðgjöf og var við gerð hans miðað að því að hann væri notendavænn og gæti þjónað fjölbreyttum og ólíkum þörfum viðskiptavina stofnunarinnar með sem aðgengilegustum hætti. Jafnframt var ríkuleg áhersla lögð á að vefurinn væri aðgengilegur í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur.
Af viðbrögðum viðskiptavina og starfsmanna Samgöngustofu má ætla að vefurinn hafi náð yfirlýstu takmarki og voru verðlaunin mikill heiður og staðfesting á árangri þeirrar vinnu sem lögð var í vefinn.