Vel heppnuð umferðar– og samgönguþing að baki

20.2.2015

Í gær, fimmtudaginn 18.febrúar, fóru fram umferðarþing og samgönguþing í Hörpu. Fundarstjóri umferðarþings var Halla Sigrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri samhæfingarsviðs Samgöngustofu en fundarstjóri samgönguþings var Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu.

Glærukynningar fyrirlesara má sjá í tenglum hér að neðan.

Umferðarþing

Umferðarþingið fór fram fyrir hádegið og var vel sótt. Þingið hófst með ávarpi Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins, sem bauð fólk velkomið. Þá tók Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, við og ræddi um hlutverk Samgöngustofu og umferðaröryggi. Í kjölfarið voru flutt erindi sem tengjast umferðaröryggi og og slysum. 

Gestir Umferðarþings

Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir, flutti áhugavert erindi um umferðarslys og mannslíkamann en þar fjallaði hún m.a. um tölfræðina á bak við slysin.

Þá fjallaði Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, um fækkun banaslysa í umferðinni, orsakir og áhrifavalda. Kynningu Ágústs má nálgast hér.

Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, flutti erindi um rannsókn á banaslysum og alvarlegum slysum með áherslu á gangandi og hjólandi vegfarendur.

Í áhrifamiklu erindi Guðbjargar Kristínar Ludvigsdóttur læknis var velt upp þeirri spurningu hvort fatlað fólk byggi við sama öryggi og aðrir í umferðinni.

Þá fjölluðu  þau Haraldur Sigþórsson, deildarstjóri öryggisáætlana hjá Samgöngustofu, og Jóhanna B. Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga og kynnt var umferðaröryggisáætlun Mosfellsbæjar. Fram kom að sveitarfélögum með yfir þúsund íbúa bæri að setja sér umferðaröryggisáætlanir.

Í lokin fjallaði Hörður Bjarnason frá verkfræðistofunni Mannviti um nýútkomnar samræmdar leiðbeiningar um gerð og merkingar götuþverana.

Samgönguþing

Samgönguþing fór fram eftir hádegið og var meginefni þess samgönguáætlanir, áherslur þeirra og stefnur.

Ólöf Nordal setur Samgönguþing

Ólöf Nordal innanríkisráðherra setti þingið og kynnti áherslur sínar til samgönguráðs fyrir vinnu að 12 ára samgönguáætlun sem nú er á lokastigi. Þá tók Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs, til máls og fór yfir helstu áfanga við gerð áætlunarinnar.

Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu fjallaði um stefnu, markmið og áherslur í samgönguáætlun 2015 – 2026.

Næst fjallaði Sigríður Droplaug Jónsdóttir frá VSÓ ráðgjöf um umhverfismat samgönguáætlunar 2015-2026.

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði við HÍ, flutti erindi um áhrif breyttrar lýðfræði á samgöngur.

Næstur tók til máls Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA og formaður framtíðarhóps , og flutti erindi um framtíðarsýn í samgöngum á Íslandi og setti upp þrjár svipmyndir af því hvernig þróunin í samgöngum gæti orðið í framtíðinni.

Þá fjallaði Árni Freyr Stefánsson, samgönguverkfræðingur hjá Mannviti, um fjármögnun stærri framkvæmda.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, ræddi um samspil skipulagsstefnu og samgöngustefnu og loks fjallaði Friðrik Pálsson hótelhaldari um samgöngur frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar.

Pallborðsumræður á Samgönguþingi

Í lokin fóru fram pallborðsumræður undir heitinu Samgönguáætlun 2015-2026 – næstu skref. Þátttakendur voru Birna Lárusdóttir, formaður Samgönguráðs, Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri innviðaskrifstofu innanríkisráðuneytisins.