Samtök evrópskra flugmála-yfirvalda, ECAC, halda fund í Reykjavík

29.8.2017

Samtök evrópskra flugmálayfirvalda, ECAC, halda fund í Reykjavík dagana 30. ágúst til 2. september 2017.

ECAC, var stofnað árið 1955 af 19 aðildarríkjum en í dag eru þau 44. Samtökin vinna að þróun öruggra, skilvirkra og sjálfbærra evrópskra flugsamgangna og megináherslur felast í að standa vörð um öryggi flugsamgangna, hagkvæmni iðnaðarins og umhverfismál.

Samgöngustofa heldur utan um fundinn með tilstyrk samgöngu-ráðuneytisins. Aðildarríki ECAC skiptast á að halda fundinn sem nú er haldinn í 66. sinn og um nokkurt skeið hefur verið óskað eftir því að stjórnvöld á Íslandi hýstu fundinn. Ástæða þess er ekki hvað síst mikilvægt hlutverk Íslands í flugsamgöngum heimsins og sá mikli og hraði vöxtur sem orðið hefur á allri flugtengdri starfsemi hér á landi. Hnattræn lega Íslands skiptir mjög miklu máli og er stærð íslenska flugstjórnarsvæðisins, sem hundruðir loftfara fara um á hverjum degi, vel þekkt. 

Fundinn sækja yfir 70 erlendir gestir frá flestum aðildarríkjum ECAC auk æðstu stjórnenda hjá Alþjóða flugmálastofnuninni (ICAO),  Flugöryggis-stofnun Evrópu (EASA) og Flugleiðsögustofnun Evrópu (Eurocontrol). Áhugavert er að geta þess að Norðurlöndin, auk Eistlands og Lettlands standa saman að rekstri skrifstofu (Nordicao) hjá Alþjóðaflugmála-stofnuninni í Kanada.  Samgöngustofa á fyrir Íslands hönd aðild að ECAC og fyrrnefndum stofnunum.

Ecac Fundur ECAC í Slóvakíu í október 2016.