Ákvörðun um gildistöku reglna um heimildir þjálfunarfyrirtækja

17.5.2019

Tekið hefur gildi innan ESB ný breytingarreglugerð á reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 sem innleiðir kröfur varðandi flugskóla sem starfa á grundvelli yfirlýsingar (Reglugerð (ESB) nr. 2018/1119). Umræddir flugskólar eru nefndir DTO skólar og er eingöngu heimilt að veita þjálfun fyrir útgáfu á LAPL/PPL/BPL og SPL skírteinum ásamt tengdum áritunum. Nánari afmörkun á heimildum DTO má sjá í grein DTO.GEN.110 í viðauka við reglugerð (ESB) nr. 2018/1119. Hægt er að nálgast reglugerðina í enskri útgáfu ásamt hliðsjónarefni (AMC) á heimasíðu flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) .

Með ákvörðun Samgöngustofu nr. 2/2019 hefur Samgöngustofa ákveðið að frá og með 1.6.2019 sé þjálfunarfyrirtækjum heimilt að starfa á grundvelli yfirlýsingar í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 2018/1119 þrátt fyrir að reglugerðin hafi ekki verið formlega innleidd í íslenskan rétt.

Þeir sem vilja starfrækja DTO þurfa að skila inn yfirlýsingu, ásamt stoðgögnum, til Samgöngustofu á sérstöku eyðublaði. Eyðublaðið er hægt að nálgast með að senda tölvupóst á fcl@icetra.is

Skila þarf inn yfirlýsingu um starfsemi áður en áætluð starfsemi hefst. Eftir grunnyfirferð á umsóknargögnum úthlutar Samgöngustofa skólanum númer og þá er hægt að hefja starfsemi. Að undanskildum prófdómaranámskeiðum fyrir svifflugskírteini þá þarf ekki samþykki Samgöngustofu áður en þjálfun hefst. Hins vegar ber Samgöngustofu að fara yfir námskeið og meta hvort þau námskeið séu í samræmi við kröfur.

Komi í ljós að námskeið eða aðrar upplýsingar í yfirlýsingu séu ekki í samræmi við kröfur stofnar Samgöngustofa frávik á viðkomandi DTO. Viðbrögð við frávikum fara eftir eðli og alvarleika frávika. Sé um að ræða þjálfun sem ekki er í samræmi við kröfur gæti viðkomandi DTO þurft að hætta þjálfun og orðið ábyrgur fyrir lagfæringu.

DTO skólar eru háðir úttektum frá Samgöngustofu í samræmi við skilgreinda úttektaráætlun og þurfa að skila árlega inn skýrslum um starfsemi skólans og innri rýni.

DTO skólar þurfa að greiða árgjald fyrir starfsemi skólans skv. gjaldskrá Samgöngustofu og yfirferð á gögnum er samkvæmt tímagjaldi í gjaldskrá. Til að auðvelda yfirferð og minnka kostnað geta skólar nýtt sér útgefnar þjálfunaráætlanir og hliðsjónarefni sem hægt er að nálgast á netinu, t.d. hjá öðrum flugmálayfirvöldum. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá þjálfunar- og skírteinadeild flugs fcl@icetra.is