Alþjóðlegt samkomulag um mengunarkvóta í flugi

19.10.2016

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) samþykkti á 39. allsherjarþingi sínu sem lauk 7. október s.l. nýtt kerfi mengunarkvóta sem byggir á markaðsgrunni. Kerfinu er ætlað að draga úr áhrifum af losun koltvíoxíðs frá flugumferð og er það mikilvægur liður í því að ná markmiðum sem sett voru fram með Parísarsamkomulaginu í desember 2015 um að draga úr loftlagsbreytingum. 

Kerfið er einn hlekkur í keðju aðgerða til að draga úr áhrifum af losun koltvíoxíðs, sem m.a. hefur áhrif á hækkun hitastigs í heiminum, samhliða tækniframförum, breytingum í flugrekstri, ýmsum hagrænum aðgerðum og  aukinni framleiðslu og notkun vistvæns eldsneytis. Hver floginn km og hvert flutt kg verða metin til mengunareininga sem greiða þarf fyrir. Kerfið ber nafnið CORSIA, sem stendur fyrir Carbon Offsetting and Reduction Scheme for International Aviation. CORSIA byggir á sambærilegri hugmyndafræði og viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) og mun leysa það af hólmi fyrir evrópska flugrekendur.  

Alls hafa nú 66 þjóðir skuldbundið sig til að vera með í svokölluðu forstigi verkefnisins, þ.e.valfrjálsri prófun á útfærslu kerfisins árin 2021 – 2023.  Ísland, ásamt öllum 44 þjóðum Evrópu sem starfa innan samtaka evrópskra flugmálastjórna, hefur heitið þátttöku strax á forstigi. Á árunum 2024 – 2026 mun fyrsta rekstrartímabilið standa yfir og er þá einnig um valfrjálsa þátttöku þjóða að ræða. Tímabilið 2027 – 2035 munu síðan allar aðildarþjóðir Alþjóðaflugmálastofnunarinnar taka þátt með undantekningum þó sem taka til nokkurra þróunarríkja og ríkja með takmarkaða flugumferð. 

Ötullega hefur verið unnið að því að ná þessu samkomulagi undanfarin þrjú ár. Það er því mikið ánægjuefni að tillagan hafi verið samþykkt og þakkaði Dr. Fang Liu framkvæmdastjóri Alþjóðaflugmálastofnunarinnar öllum hlutaðeigandi sérstaklega fyrir þátttöku í undirbúningi innleiðingarinnar. Þá ítrekaði hún hvernig samkomulagið endurspeglar þá samvinnu sem ríkir um þetta málefni innan flugheimsins, en allir helstu hagsmunaaðilar höfðu lýst yfir stuðningi við verkefnið. 

Nánari upplýsingar má finna hér hjá ECAC og hér hjá ICAO .