Breytt fyrirkomulag við tilnefningu prófdómara fyrir færnipróf
Samgöngustofa tilkynnir um breytt fyrirkomulag við tilnefningu prófdómara fyrir færnipróf í flugi sem útlistað er í upplýsingabréfi 1/2015. Með breytingunni er Samgöngustofa að verða við kalli eftir auknu gagnsæi í tilnefningum prófdómara frá þeim sjálfum, skólum og nemendum. Breytingin auðveldar einnig eftirlit stofnunarinnar með prófdómurum og prófum/hæfnimötum.
Breytingin snýr fyrst og fremst að því að samþykkt þjálfunarfyrirtæki (ATO) og yfirlýst þjálfunarfyrirtæki (DTO) óska eftir tilnefningu prófdómara fyrir LAPL/SPL/PPL/CPL færnipróf (skill test) og hæfnimat (Assessment of Competence) fyrir kennararéttindi á einstjórnarloftför (vegna nýútgáfu eða viðbótarréttinda) til Samgöngustofu.
Óskað skal eftir tilnefningu á netfangið skilltest@icetra.is
Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja beiðni um tilnefningu prófdómara:
- Nafn þess ATO / DTO sem óskar eftir prófinu.
- Nafn próftaka, kennitala (ef á við), netfang og símanúmer.
- Tegund prófs sem óskað er eftir að verði framkvæmt.
- Sá flugvöllur þar sem prófið fer fram.
Samgöngustofa áskilur sér þrjá (3) virka daga fyrir afgreiðslu beiðna um tilnefningu. Þegar próftaka hefur verið úthlutaður prófdómari með tölvupósti er gert ráð fyrir að próftaki hafi samband við prófdómara sem fyrst.
Nýtt fyrirkomulag mun taka gildi 1. maí 2022.