EASA afturkallar kyrrsetningu Boeing B737 MAX
Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins hefur afturkallað kyrrsetningu flugvéla af gerðinni Boeing B737 MAX í Evrópu
Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins (EASA) hefur gefið út fréttatilkynningu um afturköllun kyrrsetingar flugvéla af gerðinni Boeing B737 MAX í Evrópu. Er þetta í samræmi við tilkynningu í nóvember um þessi áform.
EASA, sem Ísland er aðili að, kyrrsetti Boeing B737 MAX í Evrópu þann 12. mars 2019. Afturköllun á kyrrsetningunni nú er gerð með útgáfu lofthæfifyrirmæla (Airworthiness Directive).
Í stuttu máli hefur í kjölfar ítarlegrar greiningar og samstarfs flugmálayfirvalda og framleiðandans verið gengist fyrir fjölda útbóta varðandi hönnun og flugeiginleika vélarinnar. Endurbæturnar varða bæði virkni kerfa og tengingu þeirra og tilheyrandi uppfærslu á hugbúnaði. Að auki hafa ný skilyrði um starfrækslu og viðhald fyrir vélarnar verið ákvörðuð.
Flugrekendur munu endurþjálfa alla flugmenn sem hafa tegundaráritun á flugvélina. Breytingar verða einnig gerðar á kröfum um þjálfun til framtíðar Ítarlegar flugprófanir hafa verið gerðar til að sannreyna árangur úrbótanna. Áfram verður fylgst náið með starfrækslu vélanna þegar hún hefst að nýju.
Næstu skref eru að flugrekendur sem starfrækja flugvélina hefja undirbúning að þjálfun flugmanna, uppfærslu á hugbúnaði í vélunum og tilheyrandi vinnu við viðhald og breytingar. Samgöngustofa fylgist með því að áður en starfræksla B737 MAX skráðum á Íslandi hefst, verði öll skilyrði uppfyllt. Í dag eru B737 MAX í flota nokkurra flugrekenda í Evrópu. Flugrekandinn Icelandair er meðal þessara flugrekenda.