EASA tilkynnir áform um að afturkalla kyrrsetningu Boeing B737 MAX
Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins (European Union Aviation Safety Agency- EASA ) sem Ísland er aðili að, kyrrsetti flugvélategundina Boeing B737 MAX í Evrópu þann 12. mars 2019. Nú um 20 mánuðum síðar hefur EASA gefið út fréttatilkynningu sem vísar í skýr áform stofnunarinnar um að afturkalla kyrrsetninguna á næstu vikum.
Umfangsmikil vinna hefur átt sé stað bæði hjá EASA og öðrum flugmálayfirvöldum, sérstaklega flugmálastofnun Bandaríkjanna (Federal Aviation Administration of the United States – FAA) til að tryggja nauðsynlegar úrbætur á B737 MAX. EASA undirstrikar í fréttatilkynningu sinni að stofnunin hafi gert ítarlegt sjálfstætt mat á öryggisþáttum vélarinnar, í samvinnu við FAA og framleiðandann Boeing, til að tryggja að þær orsakir sem leiddu til kyrrsetningar muni ekki endurtaka sig. Þá hefur einnig verið unnið náið með öðrum flugmálayfirvöldum þ.m.t. í Kanada og Brasilíu.
Þær úrbætur sem um er að ræða byggjast á ítarlegu mati á hönnun og flugeiginleikum vélarinnar og þ.m.t., öllum megin stjórnkerfum. Þá var um ítarlega endurskoðun að ræða á öllum atriðum er varða þjálfun flugmanna og tengd atriði.
Endurbæturnar fela þannig í sér tilteknar breytingar á flugvélunum, bæði varðandi virkni kerfa og tengingu þeirra og tilheyrandi uppfærsla á hugbúnaði. Þá verða flugrekendur að endurþjálfa alla flugmenn sem hafa réttindi á flugvélina og breytingar verða gerðar á kröfur um frumþjálfun og síþjálfun til framtíðar. Ítarlegar flugprófanir hafa farið fram til að sannreyna árangur úrbótanna en jafnframt verður áfram fylgst náið með starfrækslu vélanna þega hún hefst að nýju.
Niðurstaða af mati EASA á öryggi B737 MAX er að flugvélin uppfylli allar flugöryggiskröfur að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Skilyrðin eru í formi fyrirmæla og eru í dag til umsagnar í Evrópu, en þau byggjast að mestu á þegar útgefnum fyrirmælum frá FAA. Gert er ráð fyrir að endanleg útgáfa verði tilbúin um miðjan janúar.
Næstu skref eru að flugrekendur sem starfrækja flugvélina hefja undirbúning að þjálfun flugmanna, uppfærslu á hugbúnaði í vélunum og tilheyrandi vinnu við viðhald og breytingar.
Samgöngustofa fylgist með því að áður en starfræksla B737 MAX skráðum á Íslandi hefst, verði öll skilyrði uppfyllt. Í dag eru B737 MAX í flota sex flugrekenda í Evrópu auk pantana frá nokkrum til viðbótar. Flugrekandinn Icelandair er meðal þessara flugrekenda.