Ferðatakmarkanir framlengdar til 1. júlí

16.6.2020

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að ferðatakmarkanir sem tóku gildi þann 20. mars síðastliðinn verði framlengdar til 1. júlí 2020, í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar ESB til aðildarríkja Schengen-samstarfsins.

Útlendingum, sem hvorki eru ESB/EES- né EFTA-borgarar, er því áfram óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda.

Til hverra ná ferðatakmarkanirnar?

Ferðatakmarkanirnar gilda um alla erlenda ríkisborgara, nema ríkisborgara ESB/EES, EFTA og Bretlands, óháð því hvort þeir þurfi áritun til að ferðast til Schengen svæðisins eða ekki. Um undanþágur frá ferðatakmörkununum má lesa á vef Útlendingastofnunar.

Til hverra ná ferðatakmarkanirnar ekki?

Ferðatakmarkanir gilda ekki um:

  • Ríkisborgara aðildarríkja ESB/EES og EFTA
  • Breska ríkisborgara
  • Einstaklinga með gilt dvalarleyfi á Íslandi eða í einhverju aðildarríkja Schengen samstarfsins
  • Aðstandendur Íslendinga eða annarra ESB/EES eða EFTA-borgara, þ.e. maka, sambúðarmaka, afkomendur (yngri en 21 árs) og ættingja í beinan legg af eldri kynslóð á framfæri þeirra.


Frá og með 15. júní eiga ofantaldir einstaklingar þess kost að fara í sýnatöku vegna COVID-19 við komuna til landsins í stað 14 daga sóttkvíar, sjá upplýsingar til komufarþega eftir 15. júní á vef Útlendingastofnunar.