Ferðatakmarkanir framlengdar til 15. júní

14.5.2020

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að ferðatakmarkanir sem tóku gildi þann 20. mars sl. verði framlengdar til 15. júní 2020, í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar ESB til aðildarríkja Schengen samstarfsins.

Umfang ferðatakmarkananna er óbreytt og er útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, áfram óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda.

Nánari upplýsingar um til hverra ferðatakmarkanirnar ná og hverjir eru undanþegnir þeim er að finna í fyrri frétt á heimasíðu Útlendingastofnunar.

Einstaklingum sem koma til Íslands frá löndum sem skilgreind eru af sóttvarnarlækni sem áhættusvæði, er áfram skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu til landsins, en heimild sóttvarnalæknis til að veita undanþágur fyrir vinnusóttkví hefur verið rýmkuð. Landamæraeftirlit á innri landamærum verður framlengt til 15. júní 2020 samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytis.

Samkvæmt tilkynningu stjórnvalda er stefnt að því að eigi síðar en 15. júní næstkomandi taki gildi reglur um sýnatökur sem fela í sér að þeir sem koma til landsins geta komist hjá sóttkví að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Er þá annað hvort um að ræða að viðkomandi láti prófa sig við COVID-19 á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins, eða geti framvísað fullnægjandi vottorði um að sýnataka erlendis hafi leitt í ljós að viðkomandi sé ekki smitaður af kórónaveirunni.

Sjá nánar á vef Útlendingastofnunar

Frétt uppfærð 5. júní 2020