Flug loftfara yfir eldgosi í Geldingadölum

26.3.2021

Mikil ásókn er í að skoða eldgosið á Reykjanes úr lofti. Í öryggisskyni hefur tímabundið verið sett hámark á fjölda loftfara sem er hverju sinni innan BIR2 (Vestursvæðis). Hámarkið miðast við bestu sjónflugsskilyrði og er 8 loftför. Sjá gildandi NOTAM. Athygli er vakin á því að hámarkið á við um allt Vestursvæðið – ekki eingöngu svæði í næsta nágrenni gossins. Þegar flogið er í næsta nágrenni við eldstöðina þurfa flugmenn að tryggja sín á milli að fjöldi loftfara sé ekki meiri en svo að flugöryggi sé tryggt. Bent er einnig á mikilvægi þess að huga vel að annarri umferð þegar flogið er inn og út úr svæðinu. 

Aðskilnaður milli loftfara í sjónflugi innan svæðisins er á ábyrgð flugmanna.

Samgöngustofa setur fram eftirfarandi tilmæli til flugmanna vegna flugs í svæðinu:

a) þyrlur ættu að forðast að fara upp fyrir 700 fet yfir jörðu (AGL)
b) flugvélar og fis ættu að forðast að fara niður fyrir 800 fet yfir jörð (AGL)
c) drónar mega ekki fara upp fyrir 120 m yfir jörðu (AGL)

Til viðbótar minnir Samgöngustofa á eftirfarandi:

 • Samkvæmt flugreglum má ekki fljúga sjónflug, nema nauðsynlegt sé vegna flugtaks og lendingar
  a) yfir útisamkomum í minni hæð en 1.000 fetum yfir hæstu hindrun innan 600 m fjarlægðar frá loftfarinu og
  b) annars staðar en getið er í a) lið, í minni hæð en 500 fetum yfir jörð og mælist Samgöngustofa til að hér sé horft til hæstu hindrunar innan 150 m fjarlægðar frá loftfarinu;
 • samkvæmt flugreglum eru sjónflugsveðurskilyrði í C-flokki loftrýmis eftirfarandi: skyggni sé að lágmarki 5 km og fjarlægð frá skýjum sé að lágmarki 1500 m lárétt og 1000 fet (300 m) lóðrétt
 • Fagradalsfjall er í um 1300 feta hæð (390 m)
 • Isavia ANS hefur birt Upplýsingabréf flugmála vegna flugs í svæðinu, þar má m.a. sjá kort af svæðinu. AIC 008/2021 má finna hér (https://eaip.isavia.is/AMDT%20001-21_2021_03_25/BI-AIC_2021_A_008_Eruption.pdf)
 • Isavia ANS gefur út NOTAM eins og þörf er á vegna hafta í loftrými, sjá hér
 • Almannavarnir birta upplýsingar vegna takmarkana á drónaflugi, sjá hér
 • Samgöngustofa birtir fréttir og upplýsingar á vefsíðu sinni sem og samfélagsmiðlum

EINAR.MAGNUS.MAGNUSSON.-emm.is-14