Formleg tilnefning um einkaleyfi til flugumferðarþjónustu

11.12.2015

Í dag afhenti Samgöngustofa Isavia formlega tilnefningu um einkaleyfi til flugumferðarþjónustu í íslenska loftrýminu, auk efra loftrýmis Grænlands sem íslenska ríkið hefur gert um samning við það danska. Um er að ræða eitt stærsta loftrými í heimi. Með þessu er formfest þjónusta Isavia og uppfylltar skuldbindingar íslenska ríksins á þessum vettvangi, en um þær gilda strangar alþjóðlegar reglur og kvaðir.

Hjá Samgöngustofu sinna sérfræðingar um flugleiðsögu daglegu eftirliti með starfsemi Isavia. Samvinna Samgöngustofu, Isavia og íslenska ríkisins í þessum málaflokki er í þágu flugöryggis í íslenska flugumferðarþjónustusvæðinu og þar með um 30 milljóna flugfarþega sem ferðast í þeim rúmlega 130.000 flugvélum sem fara þar um á hverju ári. Segja má að fremur lítill fréttaflutningur af málefnum flugleiðsögu sé vitnisburður um vel heppnaða framkvæmd. Fjölmörg störf tengjast verkefni flugleiðsöguþjónustu eða um 300 á Íslandi. Störfin eru fjölbreytt en nefna má flugumferðastjóra, flugfjarskiptafólk, fluggagnafræðinga, flugradíómenn, veðurfræðinga, verkfræðinga, tölvunarfræðinga og ýmsa tæknimenn, auk stoðþjónustu í fjármálum og rekstri.

Tilnefningin sem Samgöngustofa afhenti Isavia í dag er liður í því að uppfylla alþjóðlega samninga um samevrópska loftrýmið. Bætist hún við þjónustusamning sem er í gildi milli innanríkisráðuneytisins og Isavia sem nær m.a. til verkefna á svið flugleiðsöguþjónustu, bæði á alþjóðlegu flugsvæði og í innanlandsloftrými.


Forstjóri Samgöngustofu, Þórólfur Árnason og forstjóri Isavia, Björn Óli Hauksson, ásamt starfsfólki Samgöngustofu, Isavia og innanríkisráðuneytisins fv.: Páll S. Pálsson, Hlín Hólm, Þröstur Jónsson, Reynir Sigurðsson, Helgi Björnsson, Kristín Helga Markúsdóttir, Friðfinnur Skaftason, Halla Sigrún Sigurðardóttir, Þórhildur Elínardóttir og Helga R. Eyjólfsdóttir.
Forstjóri Samgöngustofu, Þórólfur Árnason og forstjóri Isavia, Björn Óli Hauksson, ásamt starfsfólki Samgöngustofu, Isavia og innanríkisráðuneytisins fv.: Páll S. Pálsson, Hlín Hólm, Þröstur Jónsson, Reynir Sigurðsson, Helgi Björnsson, Kristín Helga Markúsdóttir, Friðfinnur Skaftason, Halla Sigrún Sigurðardóttir, Þórhildur Elínardóttir og Helga R. Eyjólfsdóttir.