Fullskipuð framkvæmdastjórn

20.9.2017

Rúm fjögur ár eru síðan Samgöngustofa var sett á laggirnar með samruna Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar, Umferðarstofu og nokkurra verkefna frá Vegagerðinni. Á þeim tíma sem liðinn er hefur mikið starf verið unnið í endurskipulagningu starfseminnar og samþættingu verkferla með markmið um öryggi í samgöngum, fagmennsku og greiða þjónustu. Verulegar breytingar hafa orðið á umliðnum árum í nálgun Evrópuríkja á gagnkvæmum viðurkenningum og því markmiði að samgönguöryggi sé frumskylda þjóðanna og starfsemi leyfishafa uppfylli kröfur.

Framkvæmdastjórn Samgöngustofu hefur tekið nokkrum breytingum frá því í upphafi eins og eðlilegt má teljast hjá nýrri stofnun í mótun. Nú er hún loks fullskipuð miðað við skipurit sem samþykkt var af innanríkisráðuneyti á síðasta ári. Helstu breytingar frá upphaflegu skipuriti eru þær að mannauðsmál og gæðamál heyra nú beint undir forstjóra, farsvið tók við af flug-, siglinga- og umferðarsviðum og nýtt þjónustusvið var sett á laggirnar. Í framkvæmdastjórn sitja nú 9 manns, fimm konur og fjórir karlar á aldrinum 36 – 60 ára.

Framkvæmdastjórn Samgöngustofu

Framkvæmdastjórn Samgöngustofu, frá vinstri: Þórólfur Árnason forstjóri, Guðmundur Guðmundsson gæðastjóri, Einar Örn Héðinsson frkvstj. farsviðs, Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir frkstj. þjónustusviðs, Ólöf Friðriksdóttir mannauðsstjóri, Þórhildur Elínardóttir samskiptastjóri, Guðjón Atlason frkvstj. mannvirkja- og leiðsögusviðs, Sigríður Björk Gunnarsdóttir frkvstj. rekstrarsviðs og Halla Sigrún Sigurðardóttir frkvstj. samhæfingarsviðs og staðgengill forstjóra.