Fundur vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að Eurocontol

24.2.2022

Fundur fulltrúa Samgöngustofu og Eurocontrol stendur yfir dagana 23. og 24. febrúar. Er hann liður í viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að Eurocontol, evrópskri milliríkjastofnun sem sinnir ýmsum flug- og flugleiðsögutengdum verkefnum. Með umsókninni er stefnt að því að Ísland verði fullgildur aðili að Eurocontrol frá og með 1. janúar 2025 og þar með 42. aðildarríki stofnunarinnar. Enn sem komið er, er Ísland eina land Evrópu sem er ekki aðili að stofnuninni ef frá eru talin nokkur smáríki innan Evrópu sem ekki sinna verkefnum sem tengjast loftrýminu. Rússland og Hvíta-Rússland eru einnig utan þessa samstarfs en á móti koma lönd utan Evrópu sem telja hag sínu borgið með aðild.

Ef samningar nást verður stigið mikilvægt skref í alþjóðastarfi sem Samgöngustofa mun leiða fyrir Íslands hönd. Helsti ávinningur aðildar er full þátttaka í miðlægri flæðisstjórnun flugumferðar fyrir samevrópska loftrýmið og samræmdri krísustjórnun vegna t.d. eldgosa og heimsfaraldra. Henni fylgir aðgangur að kerfum, gagnabönkum, greiningarvinnu, tæknilausnum, þjálfun og stuðningi við ýmsa þætti flugmála sem snúa að rekstrarstjórnun, skilvirkni, öryggi og netvernd svo nokkuð sé nefnt.

IMG_8458oklitil .