Gjaldþrot Primera Air

1.10.2018

Samgöngustofa vill, í kjölfar frétta af rekstrarstöðvun Primera Air sem starfar á grundvelli flugrekstrarleyfa útgefnum af lettneskum og dönskum stjórnvöldum, koma eftirfarandi leiðbeiningum til farþega. 

Stjórnendur Primera Air eiga í viðræðum við flugmálayfirvöld í Danmörku og Lettlandi varðandi aðgerðir til að aðstoða farþega. Þessar ráðstafanir munu að líkindum skýrast fljótlega.

Um réttindi farþega vegna rekstrarstöðvunar gildir í meginatriðum eftirfarandi: 

  • Farþegar sem keyptu flugmiða með kreditkorti er bent á að hafa samband við útgefanda þess til að kanna möguleika á að fá flugmiðann endurgreiddan.
  • Farþegar sem keyptu ferðina af evrópskum ferðaskipuleggjanda, þ.m.t. íslenskum, sem seldi flugmiðann sem hluta af svokallaðri alferð (þ.e. samsettri ferð þar sem flug er selt ásamt gistingu eða öðrum þjónustuþáttum) eiga rétt á heimflutningi á grundvelli samevrópskra reglna um alferðir. Farþegum er bent á að hafa samband við þann ferðaskipuleggjanda sem þeir keyptu ferð sína af.
  • Farþegar kunna jafnframt að eiga kröfu á hendur Primera Air, m.a. á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega.

Spurningar og svör um réttindi farþega við rekstrarstöðvun flugfélaga má nálgast hér.

Samkvæmt frétt Primera Air verða upplýsingar uppfærðar á vef félagsins https://primeraair.com/about-us/corporate-news/?page=1 

Uppfært 3.10.2018: Icelandair, í samstarfi við Vita ferðir, hefur vakið athygli á því að farþegum sem áttu bókað flugfar með Primera Air á næstu tveimur vikum frá Kanarí og Alicante standa til boða sérstök flugfargjöld frá þessum áfangastöðum til Keflavíkur. Er þeim bent á að senda tölvupóst á ferd@vita.is .