Hvaða gögnum þurfa farþegar að skila?

12.6.2017

Að undanförnu hafa fjölmiðlar nokkuð fjallað um þau gögn sem farþegum ber að skila flugfélögum þegar kemur að bótakröfum vegna mikilla seinkana á flugi eða niðurfellinga á þeim.

Fjallað er um réttindi flugfarþega vegna seinkunar á flugi, aflýsingar eða neitunar á fari í reglugerð EB nr. 261/2004. Gildir þessi reglugerð í allri Evrópu, þar á meðal á Íslandi og ber Samgöngustofa ábyrgð á framkvæmd hennar. Í reglugerðinni kemur fram að til þess að farþegi geti krafist bóta þurfi hann að hafa staðfesta farskráningu og hafa komið til innritunar í það flug sem um ræðir og á réttum tíma. Með farskráningu er átt við farmiða eða annað sönnunargagn sem sýnir að flugrekandinn eða ferðasalinn hafi staðfest farskráninguna og skráð hana.

Afstaða Samgöngustofu er að nægjanlegt skuli vera fyrir farþega að framvísa farmiða eða öðru sem sannar að hann hafi keypt flugfar með viðkomandi flugi. Hvergi í Evrópureglugerðinni kemur fram að farþegi þurfi einnig að framvísa brottfararspjaldi eða töskumiðum. Hafi hann ekki mætt til innritunar eða komið of seint, sé það því flugfélags eða ferðasala að leggja fram sönnun þar um.