Framlenging ferðatakmarkanna

14.7.2020

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að framlengja ferðatakmarkanir ESB og Schengen en afnema jafnframt, frá og með 15. júlí næstkomandi takmarkanir gagnvart íbúum fjórtán ríkja í samræmi við ákvörðun aðildarríkja ESB þar að lútandi. Í nýrri reglugerð ráðherra kemur einnig fram að bannið eigi ekki við um íbúa og ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkanið.

Ferðatakmarkanirnar eiga ekki við um ríkisborgara eða þá sem hafa gilt dvalarleyfi í ríkjum EES og EFTA og aðstandendur þeirra. Þá eiga þær ekki við um þá sem hafa sannanlega búsetu í einu af þeim fjórtán ríkjum sem um ræðir og eru að koma til landsins þaðan.

Ríkin fjórtán eru:


Alsír
Ástralía
Kanada
Georgía
Japan
Marokko
Nýja Sjáland
Rúanda
Serbía
Suður Kórea
Svartfjallaland
Túnis
Tæland
Úrúgvæ

Listi þessi verður endurskoðaður reglulega.

Engar aðrar breytingar verða heldur á undanþágum frá takmörkunum vegna brýnna erindagjörða. Áfram verður t.a.m. námsmönnum frá ríkjum utan Schengen sem hyggjast stunda nám og sérfræðingum í vinnutengdum erindum heimilt að koma til landsins.

Á vef útlendingastofnunar má lesa nánar um takmarkanir , undanþágur og gögn sem þeir sem hingað koma gætu þurft að framvísa fyrir brottför eða við komuna til landsins.

Sjá nánar á vef dómsmálaráðuneytisins.