Innleiðing á nýjum EASA spurningabanka fyrir bókleg flugpróf

23.8.2018

Flugöryggismálastofnun Evrópu (EASA) hefur gefið út nýja uppfærslu á samevrópskum spurningabanka (ECQB) fyrir bókleg atvinnuflugmannspróf. Samgöngustofu er gert að ljúka við innleiðingu á uppfærðum spurningabanka fyrir septemberlok 2018. Miðað við útgefna prófaáætlun Samgöngustofu má áætla að uppfærslan verði tekin í notkun fyrir bókleg próf sem haldin verða 8. – 12. október 2018.


Í nýrri uppfærslu spurningabankans má m.a. finna 1259 nýjar spurningar dreifðar yfir fög 010 – 092. Alls hafa 2608 spurningar til viðbótar verið lagfærðar auk þess sem 1038 spurningar hafa verið fjarlægðar.


Athygli er vakin á þeim breytingum er tengjast Student Pilot Route Manual (SPRM), en samhliða uppfærslu spurningabankans hefur nýr SPRM, General Student Pilot Route Manual (GSPRM), verið tekinn í gagnið. Einnig má búast við fleiri tilvísunum í GSPRM en áður í þeim fögum sem það á við. Í GSPRM eru fylgigögn litaprentuð og í góðri upplausn. Samgöngustofa mælist til þess að próftakar verði sér úti um eintak og hafi meðferðis við próftöku.

Eldri útgáfur kortabóka (Jeppesen SPRM) hafa verið teknar úr notkun og verða ekki leyfðar í prófum Samgöngustofu. Samgöngustofa mun þó eftir sem áður útvega öll nauðsynleg fylgigögn fyrir bókleg próf í rafrænu- eða pappírsformi eins og tíðkast hefur. Breytingar á reglum um fylgiskjöl, þ.m.t. notkun á CAP 696, 697 og 698 eru ekki fyrirhugaðar að svo stöddu. Samgöngustofa getur ekki ábyrgst að fylgiskjöl í prófi samræmist að fullu síðustu útgáfu af CAP. Nánari reglur um leyfileg fylgigögn eru aðgengilegar hér.


Vakin er sérstök athygli á að fyrir bókleg ATPL og IR próf munu bætast við spurningar um hæfisbundna leiðsögu (e. Performance Based Navigation (PBN)), sbr. uppfærslu á AMC/GM við reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 . Próftökum er bent á að vera í sambandi við sinn flugskóla varðandi frekari upplýsingar um breytingar á námskrá og einnig til að verða sér út um eintak af GSPRM.


Nánari upplýsingar varðandi fyrirhugaðar breytingar eru aðgengilegar á heimasíðu EASA .