Loftferðasamningur Íslands og Bretlands öðlast gildi
Loftferðasamningur milli Íslands og Bretlands öðlaðist formlega gildi 1. september síðastliðinn. Samningnum hefur verið beitt til bráðabirgða frá síðustu áramótum fram að gildistöku og voru flugsamgöngur milli ríkjanna því tryggðar við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Robert Courts, ráðherra siglingamála og almannaöryggis í bresku ríkisstjórninni, undirrituðu samninginn í desember í fyrra. Hann öðlaðist formlega gildi 1. september þegar ríkin skiptust á yfirlýsingum um lok fullgildingarferlis.
Loftferðasamningurinn var gerður vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og var hann fyrsti langtímasamningurinn sem Ísland gerði við Bretland í tengslum við hana. Fram að því höfðu flugsamgöngur á milli Íslands og Bretlands byggst á þátttöku þeirra í Samevrópska flugsvæðinu (ECAA) sem byggist á EES-samningnum. Loftferðasamningur Íslands og Bretlands veitir sömu tvíhliða flugréttindi og verið höfðu með aðild þeirra að ECAA.