Námskeið um öryggisstjórnunarkerfi

2.2.2018

Samgöngustofa stendur þessa dagana fyrir tveimur námskeiðum í öryggisstjórnunarkerfum (SMS) í samvinnu við JAA TO sem er þjálfunarfyrirtæki, rekið á vegum evrópskra flugmálayfirvalda. Um kennsluna sér dr. Ilias Panagopoulos, en hann hefur mikla þekkingu og reynslu í þessum fræðum og hefur kennt yfir 1200 manns. Þátttakendur á þessum námskeiðum hérlendis nú eru samtals um 80, þ.m.t. frá íslenskum flugrekendum og viðhaldsfyrirtækjum.

Kröfur um öryggisstjórnun í flugi koma upprunalega frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og gilda á heimsvísu í nær allri flugstarfsemi. Í stuttu máli felst öryggisstjórnun í því að rekstraraðili meti með skipulögðum aðferðum hugsanlegar hættur í starfsemi sinni og geri ráðstafanir til að bregðast við þeim eins og við á.   

Í Evrópu hafa kröfur um öryggisstjórnun verið í gildi um nokkurn tíma, t.d. í flugleiðsögu frá árinu 2006 og tóku einnig gildi í  flugvallamálum, flugrekstri og flugkennslu fyrir nokkrum árum. Kröfur um slík kerfi eru nú að verða virkar í þáttum er snúa að lofthæfi.

Hagnýting öryggisstjórnarkerfa verður sífellt mikilvægari og sambærilegar reglur gilda í siglingum í Evrópu. Fyrirséð er aukin áhersla á að efla öryggisstjórnun á öllum sviðum samgangna í nánustu framtíð.

20180202_101938 Þátttakendur á fyrra námskeiðinu.