Starfræksla ómannaðra loftfara

7.2.2014

Samgöngustofu berast í auknum mæli fyrirspurnir um starfrækslu ómannaðra loftfara. Stofnunin vinnur að ritun sértækra reglna um ómönnuð loftför, en upplýsingabréf þetta veitir upplýsingar um þær reglur sem eru nú í gildi um starfrækslu ómannaðra loftfara.

Um ómönnuð loftför gilda almennt sömu reglur og um mönnuð loftför, þ.m.t. lög um loftferðir nr. 60/1998 og reglugerð um flugreglur nr. 770/2010 en þar má m.a. finna í I. kafla viðauka I við reglugerðina skilgreiningu á því hvað telst vera loftfar: .

Í gildi eru einnig sértækar reglur fyrir flugvélalíkön og það er mat Samgöngustofu að þær reglur nái líka til ómannaðra loftfara. Þær reglur er að finna í Flugmálahandbók (AIP) Íslands, ENR 1.1.10   og þar segir m.a.:

Einstaklingur eða fyrirtæki sem óskar eftir að starfrækja ómannað loftfar yfir 5 kg skal sækja um leyfi fyrir slíkri starfrækslu til Samgöngustofu. Samgöngustofa metur umsóknir á grundvelli þeirra reglna sem gilda um loftför.

Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja beiðni um starfrækslu ómannaðs loftfars:

1.  nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang umsækjanda;

2.  nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang þess sem stjórna á loftfarinu auk upplýsinga um hæfni og þjálfun;

3. lýsing á þeirri starfrækslu sem óskað er leyfis fyrir;

4. lýsing og kort af því svæði sem fljúga á yfir, þ.m.t. því loftrými sem óskað er eftir að fljúga innan (hliðar- og hæðarmörk);

5. lýsing á tækjum og búnaði sem notast skal við;

6. áhættumat fyrir þá starfrækslu sem óskað er leyfis fyrir, þ. á m. lýsingu á þeim ráðstöfunum eða mildunaraðgerðum sem gerðar eru til að tryggja ásættanlega áhættu við starfræksluna; áhættumatið skal innihalda að lágmarki:
a. lýsingu á því hvernig tryggt sé að flugið eigi sér stað eingöngu innan skilgreinds svæðis (bæði lárétt og lóðrétt) sem óskað er eftir fyrir starfræksluna
b. lýsingu á því hvernig aðskilnaður frá öðrum loftförum verður tryggður
c. lýsingu á því hvernig brugðist verður við óvæntum aðstæðum svo sem eins og við bilun í fjarskiptabúnaði eða sjónarmissi;

7. staðfestingu á tryggingum;

8. staðfesting frá lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi um að ekki sé gerð athugasemd við umrætt flug;

9. staðfesting frá umráðanda þess landsvæðis sem fljúga á yfir, eftir því sem við á, um að ekki sé gerð athugasemd við fyrirhugaðflug.

Það er hlutverk Samgöngustofu að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi. Afgreiðsla leyfa til starfrækslu ómannaðra loftfara mun taka mið af því heildarsjónarmiði að áhættan við starfrækslu þeirra sé ásættanleg og ekki meiri en við starfrækslu mannaðra loftfara.

Samgöngustofa bendir sérstaklega á reglugerð um flugreglur nr. 770/2010 sem m.a. setur takmarkanir á hvar loftför mega athafna sig.

Samgöngustofa bendir einnig á að loftrými yfir Íslandi er flokkað eftir því hvaða flugumferðarþjónusta er veitt í loftrýminu og upplýsingar um þessa flokkun má finna í Flugmálahandbók (AIP Ísland). Flokkur loftrýmis setur einnig takmarkanir á það hvaða loftförmega athafna sig í hverju loftrými fyrir sig.

Samgöngustofa bendir enn fremur á reglur um skaðabótaskyldu og kröfur um tryggingar loftfara en í 128. gr. loftferðalaga segir: Nú hlýst af notkun loftfars skaði á mönnum eða hlutum sem eru utan loftfarsins, og er eigandi þess eða, eftir því sem við á, aðili sá sem ber kostnað af rekstri þess skyldur að bæta skaðann. Með hliðsjón af 2. gr. reglugerðar nr. 78/2006 um skylduvátryggingar vegna loftferða lítur Samgöngustofa svo á að skylt sé að vátryggja ómönnuð loftför með skráðan hámarksflugtaksmassa yfir 20 kg. Samgöngustofa telur hins vegar æskilegt að öll ómönnuð loftför séu vátryggð með sama hætti og mönnuð loftför.