Handbækur, skilti og merkingar loftfara skulu vera á ensku eða íslensku

7.12.2012

Flugmálastjórn Íslands hefur með ákvörðun sinni nr. 6/2012, dags. 6. desember 2012, gert það að skyldu að í skráðum loftförum á Íslandi skulu allar handbækur, skilti, merkingar á mælitækjum og aðrar nauðsynlegar upplýsingar, sem krafist er í viðeigandi vottunarforskriftum, vera annað hvort á ensku eða íslensku. Efni ákvörðunarinnar er að finna hér .
Flugmálastjórn telur nauðsynlegt að handbækur, skilti, skráningar, merkingar á mælitækjum og aðrar nauðsynlegar upplýsingar, sem krafist er í viðeigandi vottunarforskriftum, séu á tungumáli sem hægt er að ganga út frá að bæði þeir sem eru að nota loftfarið og hafa eftirlit með því skilji. Í ljósi þess að enska er alþjóðlegt tungumál flugsins gerir Flugmálastjórn þá kröfu að umrædd gögn og upplýsingar séu á fyrst og fremst á ensku og að samræmi sé á milli flughandbókar og merkingar sem krafist er samkvæmt tegundaskírteini loftfarsins. Allir flugmenn hvort sem er í atvinnuflugi eða einkaflugi þurfa að sýna fram á ákveðna kunnáttu og leikni í enskri tungu, flughandbækur eru nær allar á ensku, merkingar um borð eru oftast á ensku.