Flugrekandi, flugfélag, ferðaskipuleggjandi og ferðaskrifstofa

26.10.2012

 

    Hver sá hérlendur aðili sem hyggst stunda flugrekstur skal hafa til þess leyfi Flugmálastjórnar Íslands.

    Í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum síðastliðna daga um rekstur Iceland Express og WOW air vill Flugmálastjórn Íslands koma því á framfæri að hvorugt fyrirtækið getur, ef litið er til laga um loftferðir, sagt sig annast flugrekstur eða sagst vera með flugvélar í rekstri.
     

Flugrekandi er einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem stundar eða býðst til að stunda rekstur loftfars í atvinnuskyni. Flugrekandi þarf flugrekstrarleyfi flugmálayfirvalda ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu. Flugmálastjórnar Íslands veitir það leyfi hérlendis. 
Til þess að fá flugrekendaskírteini og flugrekstrarleyfi hérlendis þarf að sýna fram á að skilyrðum flugöryggisstofnunar Evrópu ((EASA) (European Aviation Safety Agency) um flugöryggi sé fullnægt.
Kostnaðurinn við að öðlast flugrekstrarleyfi mælist í milljónum króna og ferlið getur tekið fleiri mánuði.

    Hver sá hérlendur aðili sem hyggst starfa sem ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi skal hafa til þess leyfi Ferðamálastofu.

  • WOW ferðir hafa ferðaskrifstofuleyfi frá Ferðamálastofu
  • Iceland Express og WOW air hafa ferðaskipuleggjendaleyfi frá Ferðamálastofu

Samkvæmt lögum um skipan ferðamála merkir ferðaskrifstofa aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, innan lands eða erlendis. Ferðaskrifstofa getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðaskipuleggjandi gerir, hvort sem hún er veitt í formi alferða eða ekki. Hugtakið ferðaskrifstofa nær bæði til ferðaheildsala og ferðasmásala samkvæmt lögum nr. 80/1994, um alferðir.
Ferðaskipuleggjandi er  einstaklingur eða lögaðili sem,  setur saman, býður fram og selur í atvinnuskyni ferðatengda þjónustu fyrir almenning þar með farmiða með flugvélum.
Kostnaður við að öðlast ferðaskrifstofuleyfi og ferðaskipuleggjandaleyfi eru fáeinar þúsundir króna auk kostnaðar við tryggingar og ferlið mælist í dögum.

Flugfélag

Venjan hefur verið sú að hugtakið flugfélag er notað um þann sem hefur flugrekstrarleyfi og er þar af leiðandi flugrekandi.  Flugrekandi getur selt farmiða og skipulagt flug án þess að hafa sérstaka heimild ferðaskipuleggjanda frá Ferðamálastofu. Vilji flugrekandi hins vegar selja meira en flug á milli staða t.d. hótelgistingu eða svonefndar alferðir þarf flugrekandinn til viðbótar ferðaskrifstofuleyfi. Hins vegar er hugtakið flugfélag ekki skilgreint í lögum um loftferðir né kemur fyrir í reglugerðum byggðum á þeim lögum. Hvaða aðili sem er getur því í raun nefnt starfsemi sína flugfélag og ferðaskipuleggjendurnir Iceland Express og WOW air hafa gert það.  
Loftför flugrekandans skulu merkt greinilega með skráningarstöfum ríkisins, á Íslandi TF, og viðbótar bókstöfum. Skráningarauðkennið  skal vera á báðum hliðum og undir vinstri væng.  Að öðru leyti er heimilt að mála og merkja loftför á ýmsa vegu t.d. með nafni ferðaskipuleggjandans.
Flugmálastjórn Íslands vill að lokum koma því á framfæri að það er mjög svo villandi tungutak þegar ferðaskipuleggjandi gefur í skyn að hann ráði yfir loftfar, annist flugrekstur og ráði flugáhafnir til starfa, þegar hann hefur í raun gert þjónustusamning við flugrekanda sem ber einn ábyrgð á lofthæfi flugvélanna og starfrækslu þeirra. Áhafnirnar eru á ábyrgð flugrekandans og starfa undir hans stjórn en ekki ferðaskipuleggjandans.