Réttindi flugfarþega við aflýsingu á flugi

21.11.2011

Flugmálastjórn vill árétta réttindi flugfarþega komi til aflýsingar á flugi.
Grundvallarréttindi farþega eru þau að hann hefur kost á að velja á milli  þess að fá annað flug eða fulla endurgreiðslu farmiða.
Ef farþegi velur að fá annað flug og þarf að bíða eftir því fjarri heimili þá skapast einnig réttur til þjónustu af hálfu flytjanda.  Sú þjónusta felur í sér fæði og gistingu eftir aðstæðum.

  Réttindin eru mismunandi eftir því hvenær farþega er tilkynnt um aflýsinguna en flytjandi verður að tilkynna farþega um aflýsinguna með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara til að þurfa ekki að borga bætur og það verður að bjóða farþega að velja annað hvort:
 • Annað flug til lokaáfangastaðar við fyrsta tækifæri eða seinna ef það hentar farþega betur, fer þó eftir sætaframboði.
 • Eða fulla endurgreiðslu farmiðans.

Flugfarþegar eiga alltaf val um að velja á milli þess að fá annað flug eða fulla endurgreiðslu miða.
Flytjandi getur boðið farþegum sambærilegan flutning til ákvörðunarstaðar ef félagið sjálft hefur ekki aðra flutningsmöguleika.

  Ef fluginu er aflýst með eins til tveggja vikna fyrirvara, verður flytjandi að geta boðið eftirfarandi til að þurfa ekki að borga bætur:
 • Annað flug sem hefst ekki meira en tveimur tímum fyrr en upphaflega flugið og kemur á áfangastað innan fjögurra klukkustunda þess tíma sem var í upphaflegri áætlun.
 • Eða fulla endurgreiðslu farmiðans
  Ef fluginu er aflýst með undir viku fyrirvara verður flugfélagið að að geta boðið eftirfarandi til að þurfa ekki að borga bætur:
 • Annað flug sem hefst ekki meira en einum tíma fyrr en upphaflega flugið og kemur á áfangastað innan tveggja klukkustunda þess tíma sem var í upphaflegri áætlun.
 • Eða fulla endurgreiðslu farmiðans

Ef þessi skilyrði eru ekki til staðar þá á farþegi rétt á bótum frá flytjanda óháð öðrum réttindum sínum.


Um réttindi farþega vegna aflýsingar á flugi er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 574/2005. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 574/2005 er Flugmálastjórn Íslands sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar nr. 261/2004/EB.
Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um réttindi farþega þegar flugi er aflýst.