Niðurstöður úttektar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) á flugmálum á Íslandi 2010

25.10.2011

Úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), Universal Safety Oversight Audit Programme (USOAP), á starfssemi Flugmálastjórnar stóð yfir dagana 19.-28. október 2010. Markmið úttektarinnar var að skoða innleiðingu íslenska ríkisins á 16 af 18 viðaukum við Chicago-sáttmálann sem undirritaður var árið 1945. Undanskildir voru Viðauki 9 (Facilitation/Að greiða fyrir flugsamgöngum) og Viðauki 17 (Flugvernd) sem teknir verða út í lok nóvember 2011.
Niðurstaða úttektarinnar er vel ásættanleg fyrir Ísland. Ekkert kom fram sem telst ógna flugöryggi (Significant safety concern) og sem krafðist bráðra úrbóta.  Tölfræðilega má einnig segja að Ísland hafi komið mjög vel út, þar sem heimsmeðaltal á vöntun á innleiðingu (lack of implementation) er 41,36% en á Íslandi 16,64%.   Athugið að lægra skor þýðir betri fylgni við reglur og viðmið ICAO og því betri útkoma úr úttektinni.
Á mynd hér má sjá yfirlit yfir stöðu mála í flestum löndum innan ECAC sem er nokkurs konar Evrópudeild ICAO. 

Samanburður við ECAC ríki

Mynd 1.  Heimild: Úr lokaskýrslum USOAP fyrir ECAC löndin (lokuð vefsíða)

Starfsumhverfi Flugmálastjórnar Íslands, skipulag og lagalegt umhverfi var skoðað í úttektinni auk þess sem könnuð var framkvæmd stjórnsýslu og heimildaveitinga stofnunarinnar sem og eftirlit Flugmálastjórnar með íslenskum flugiðnaði, allt frá skírteinaútgáfu og flugvallaeftirliti til eftirlits með lofthæfi og flugrekstri.

  • USOAP gengur út á að kanna hvernig ríkjum hefur tekist að innleiða og framfylgja átta aðalatriðum (“Eight Critical Elements”) og byggist tölfræðin sem sjá má á mynd 2 á niðurstöðu á skoðunum þessarra átta atriða. Þessi átta aðalatriði eru:
  • Lagasetning (Legislation)
    Reglugerðir um flugmál (Operation Regulgations)
  • Fyrirkomulag eftirlits með flugöryggi  (Organizations, SO Functions) 
  • Þjálfun eftirlitsmanna og sérfræðinga (Technical Experts Training )
  • Guidance (Procedures Info)
  • Útgáfa skírteina, vottorða og leyfa (Licencing Certification Obligations)
  • Samfellt eftirlit (Surveillance Inspection Obligations) 
  • Resolution of Safety Concerns (Viðbrögð við frávikum)

  ICAO Iceland CE tölfræði 2010

Mynd 2. Heimild: Úr lokaskýrslu USOAP fyrir Ísland

Fimm manns voru í úttektarliðinu undir stjórn Frú RoseMarie Heftberger. Tilgangur úttektarinnar var að gera heildar flugöryggisúttekt á Íslandi. Úttektin byggði á samþykkt frá aðalþingi ICAO 1997 en þá var ákveðið að gerð skyldi úttekt á samræmdan hátt á öllum aðildarríkjum ICAO eða svokölluð "Universal Safety Oversight Audit Programme – USOAP". Í dag eru 190 þjóðríki í heiminum aðilar að samningnum og þegar hefur verið gerð úttekt á um 160 löndum.  Á Íslandi náði úttektin  einnig að hluta til starfsemi innanríkisráðuneytisins (þá samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneyti), Rannsóknarnefndar flugslysa og Landhelgisgæslu Íslands. Að auki voru nokkur íslensk fyrirtæki heimsótt  svo sem Icelandair Tecnical Services, Icelandair, Air Atlanta, Isavia, Veðurstofa Íslands, Keflavíkurflugvöllur og Flugskóli Íslands. 

Úttektinni var skipt í 4 hluta, undirbúning úttektar, úttektin sjálf, aðgerðaráætlun til lokunar frávika og birting lokaskýrslu. Í fyrsta hluta fór fram undirbúningur úttektarinnar en starfsmenn Flugmálastjórnar sem og starfsmenn þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins höfðu undanfarið ár lagt mikla vinnu í undirbúninginn og svarað þúsundum spurninga um starfsemi stofnunarinnar, stjórnsýslu og eftirlit. Annar hluti var úttektin sjálf. Þriðja hluta úttektarinnar lauk sl. vor en þá sendi Flugmálastjórn aðgerðaáætlun og athugasemdir við drög að lokaskýrslu.   Lokaskýrsla frá ICAO barst síðla sumars og má sjá hér í viðhengi.