Ísland gerir níu nýja loftferðasamninga

25.10.2011

Níu nýir samningar voru áritaðir fyrir Íslands hönd á ráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um loftferðasamninga, ICAN 2011, sem fram fór í Mumbai á Indlandi 16.-23. október sl. Markmið ráðstefnunnar var að skapa aðildarríkjum stofnunarinnar vettvang til viðræðna um gerð og framkvæmd tvíhliða loftferðasamninga.

Ísland hefur með þessu gert á sjötta tug loftferðasamninga við önnur ríki. Nýju samningarnir eru við Ástralíu, Gana, Jórdaníu, Laos, Paraguay, Rúanda, Sádí-Arabíu, Sambíu og Suður-Afríku. Jafnframt var samið um aukin réttindi við Mexíkó og undirritaðar voru viljayfirlýsingar um gerð loftferðasamninga við Eþíópíu, Írak, Pakistan og Sri Lanka. Auk þessara fundaði sendinefnd Íslands með fulltrúum fjölda annarra ríkja, þ. á m. með Bretlandi, Indlandi og Kanada um framkvæmd gildandi samninga og með Fiji um gerð nýs samnings.

Íslensku samninganefndina skipuðu Kristján Andri Stefánsson sendiherra, sem jafnframt var formaður, og Karl Alvarsson lögfræðingur f.h. Flugmálastjórnar.

Stöðugt vaxandi umsvif íslenskra flugrekenda hafa kallað á aukna áherslu á gerð tvíhliða loftferðasamninga við sem flest ríki. Misjafnt er hversu víðtæk réttindi tekst að semja um í hverju tilviki en oftast er um að ræða gagnkvæmar heimildir til farþega- og farmflugs milli samningsríkja, stundum einnig til og frá þriðju ríkjum. Í flestum samninganna sem gerðir voru að þessu sinni hefur náðst verulegur árangur í þágu aukins aðgangs íslenskra flugrekenda að erlendum mörkuðum.