Réttindi flugfarþega sem er strandaglópur vegna verkfalls

11.10.2011


Um réttindi flugfarþega  er fjallað í reglugerð (EB) nr.  261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 574/2005.  Þegar fjallað er um greinar reglugerðarinnar og töluliði þá er verið að fjalla um EB rg. 261/2004.Það sem farþeginn lendir í er annaðhvort  aflýsing  eða seinkun flugs vegna verkfalls en um það er fjallað í greinum 5 og 6.  Þessar greinar vísa svo í greinar 8 og 9  sem fjalla um rétt til endurgreiðslu og breytingu á flugleið og rétt á þjónustu.   Í þessu tilfelli er það rétturinn á þjónustu skv. 9. gr. sem skiptir mestu en sá réttur er:

1. Þegar vísað er til þessarar greinar skal farþegum boðið eftirfarandi endurgjaldslaust:

a) máltíðir og hressing í samræmi við lengd tafarinnar,

b) hótelgisting,

— ef farþegi neyðist til að bíða eina eða fleiri nætur eftir fari,

eða

— ef farþegi neyðist til að bíða lengur en hann gerði ráð fyrir,

c) flutning á milli flugvallar og gistiaðstöðu (hótel eða annað).2. Þar að auki skal farþegum boðið að hringja tvö símtöl eða senda skilaboð um fjarrita eða bréfsíma eða með tölvupósti þeim að kostnaðarlausu.

3. Við beitingu þessarar greinar skal flugrekandinn huga sérstaklega að þörfum hreyfihamlaðra og fylgdarmanna þeirra og einnig að þörfum fylgdarlausra barna. Í þeim tilfellum sem flugfarþegar lenda í aflýsingu eða seinkun flugs þá ber flugrekanda að afhenda farþegum skriflegar upplýsingar um réttindi þeirra skv.  14. gr. rg. 261/2004.
Í þeim tilfellum sem farþegar hafa ekki fengið þessa þjónustu óumbeðið frá flugrekenda og hafa neyðst til að kaupa hana sjálfir ættu þeir að leggja fram kvittanir hjá flugrekandanum til að fá kostnaðinn endurgreiddan.

Aðferð við að fá endurgreitt:
1. skref

Ef þú vilt fá endurgreiðslu á þeim kostnaði sem varðst fyrir á meðan þú beiðst eftir nýju flugi þá ættir þú að fara eftir þeim leiðbeiningum sem flugrekandi setur fram t.d. á heimasíðu sinni. Ef engar leiðbeiningar hafa verið gefnar þá átt þú að skrifa flugrekanda og senda honum upprunalegu kvittanirnar með beiðni um endurgreiðslu, nauðsynlegt er að taka ljósrit af kvittununum til öryggis. Ef þú hefur einhverjar athugasemdir við frammistöðu flugrekans við að takast á við umræddar aðstæður þá ættir þú einnig að koma þeim á framfæri við hann beint. Þú gætir þurft að sýna þrautseigju, vertu viðbúin því að þurfa að skrifa tvisvar eða þrisvar ef þú sættir þig ekki við þau svör sem þú færð.
2. skref

Ef samskipti þín við flugrekanda skila ekki þeirri niðurstöðu sem þú vonaðist eftir er möguleiki á því að Flugmálastjórn geti aðstoðað þig. Ef þú ákveður að leita aðstoðar okkar þá þarf að senda afrit af öllum þeim samskiptum sem þú hefur átt við flugrekanda þ.m.t. svör þeirra við bréfum þínum eða tölvupóstum. Best væri að reyna til þrautar við flugrekanda áður en Flugmálastjórn er blandað í málið. Einnig sem varaleið ef þig vantar leiðbeiningar vegna svara frá flugrekenda þá er hægt að hringja í Flugmálastjórn í síma 569 4100 eða senda tölvupóst á fms@caa.is