Loftferðasamningur milli Íslands og Víetnam undirritaður

11.10.2011

Starfandi utanríkisráðherra, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, og varaforsætisráðherra Víetnam, Hoang Tsung Hai, undirrituðu þann 8. september sl. loftferðasamning milli Íslands og Víetnam. Þetta er fyrsti samningur ríkjanna á þessu sviði.
Samningurinn heimilar flugrekendum ríkjanna að fljúga áætlunarflug með farþega til ákvörðunarstaða í hvoru ríki og áfanga- og viðkomustaða á flugleiðinni auk víðtækra heimilda fyrir fraktflug. Samningurinn opnar einnig möguleika fyrir íslenska flugrekendur til að bjóða upp á leiguflug milli Íslands og Víetnam. Samningurinn við Víetnam styrkir möguleika íslenskra flugrekenda sem hafa sinnt og vilja sinna verkefnum í þessum heimshluta.
Á síðasta ári voru loftferðasamningar áritaðir við eftirtalin ríki: Armeníu, Barbados, Brasilíu, Chile, Jamaíku og Kólumbíu og er stefnt að undirritun þeirra við fyrsta tækifæri. Samningarnir munu auka svigrúm íslenskra flugrekenda sem vilja sinna verkefnum í þessum heimshlutum. Þá var í júní sl. undirritaður samningur um aðild Íslands að öðrum áfanga loftferðasamnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, en Ísland gerðist aðili að fyrsta áfanga þessa samnings í desember 2009. Samningurinn veitir íslenskum flugrekendum aukinn rétt til flugs milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna.