Eftirlit Flugmálastjórnar Íslands um verslunarmannahelgina 2011

20.7.2011

Flugmálastjórn Íslands mun sinna hefðbundnu eftirliti með loftflutningum um verslunarmannahelgina. Markmiðið er að flug gangi snurðulaust fyrir sig og að fyllsta öryggis sé gætt. Fylgst er með því að eftir öllum reglum sé farið í hvívetna til að forða flugatvikum og slysum og tryggja samkeppnisaðstöðu aðila.
Líkt og undanfarin ár verður sérstaklega fylgst með starfsemi loftfara í tengslum við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og verða eftirlitsmenn Flugmálastjórnar að fylgjast með framkvæmd flugs til Vestmannaeyja.. Áhersla verður lögð á að hafa eftirlit með því að flugmenn tryggi að loftför séu starfrækt innan þyngdartakmarkana og að útbúnaður loftfara sé samkvæmt gildandi reglugerðum. Þá verður fylgst með leyfisskyldri starfsemi sem varðar fólksflutninga í flugi en eitthvað hefur borið á að einkaflugmenn hafi stundað slíka starfsemi í tengslum við t.d. Þjóðhátíð án heimildar.

Flugmálastjórn vill beina því til almennings að fljúga eingöngu með þeim aðilum sem hafa tilskilin leyfi.
Hér má nálgast upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa tilskilin leyfi til flutningaflugs með farþega.