Fréttatilkynning varðandi úrskurð Samkeppniseftirlitsins um afgreiðslu á flugheimildum samkvæmt flugréttindum

8.2.2011

Flugmálastjórn Íslands hefur ávallt viljað efla samkeppni í flugi og hvatt til að gerðir væru víðtækir loftferðasamningar á jafnréttisgrundvelli á milli Íslands og annarra ríkja, þ.e.a.s. að flugrekendur í viðkomandi ríkum njóti gagnkvæmra réttinda. Vinna að gerð samninga er í höndum innanríkisráðuneytisins (áður samgönguráðuneytisins) en samningaviðræður á hendi utanríkisráðuneytisins. Heimildaveitingar Flugmálastjórnar eru kæranlegar til innanríkisráðuneytisins
Flugmálastjórn hefur á hendi þá stjórnsýslu að veita heimildir innan þeirra flugréttinda sem samið hefur verið um og innan ramma loftferðalaga. Eftir athugasemdir Samkeppniseftirlits var verklagi Flugmálastjórnar breytt og er ekki lengur leitað álits íslenskra flugrekenda á umsóknum erlendra aðila.

Afgreiðsla Flugmálastjórnar í umræddu máli sneri að breska flugrekandanum Astraeus Airlines ltd. Fyrirtækið Iceland Express hefur ekki flugrekstrarleyfi, er ekki flugrekandi og á því enga aðkomu að heimildarveitingum Flugmálastjórnar varðandi flugréttindi eða nýtingarétt á heimildum loftferðasamninga Íslands við önnur ríki. Í umkvörtunum sínum vísar Astraeaus Airlines ltd. réttilega til þess að það sé enskt félag sem ekki er í aðstöðu til þess að tryggja íslenskum flugrekendum nein réttindi og að loftferðasamningar Íslands og Kanada varði heimaríki hans engu. Þrátt fyrir það sækir Astraeus Airlines ltd. um flugréttindi á grundvelli loftferðasamnings milli Íslands og Kanada.

Flugmálastjórn hefur ítrekað boðið Astraeus Airlines ldt. aðstoð við útvegun gagnkvæmra réttinda en öflun gagnkvæmra réttinda eru viðtekin venja í afgreiðslu flugréttinda. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008 , þar sem fyrri tilmæli til Flugmálastjórnar koma fram, segir á bls. 125:

Í gildi er loftferðasamningur milli Íslands og Kanada. Að mati Flugmálastjórnar leyfir sá samningur ekki að íslensk stjórnvöld gefi út heimild til flugs erlends flugrekenda milli Íslands og Kanada. Hins vegar er í gildi loftferðasamningur milli Kanada og ríkja Evrópusambandsins sem er mun opnari en samningurinn milli Íslands og Kanada. Ísland hefur sóst eftir að gera samskonar samning við Kanada eins og Evrópusambandið hefur gert fyrir hönd aðildarríkja en Kanada hefur alfarið hafnað því.

Þegar ríki gera loftferðasamninga sín á milli liggur það í hlutarins eðli að hagsmunir flugrekenda innan ríkisins eru hafðir að leiðarljósi, enda mikilvægt að skapa markaðsaðstæður fyrir sína flugrekendur þannig að þeir geti starfað þar, greitt skatta og gjöld og boðið þegnum ríkisins upp á flug allt árið um kring til ákjósanlegra áfangastaða. Að auki heimila loftferðasamningar einungis að flugrekendur samningsaðila séu tilnefndir skv. þeim. Ef Astraeus Airlines  ltd.  væri íslenskur  flugrekandi væri þeim frjálst að sækja um flugréttindi á grundvelli loftferðasamnings Íslands og Kanada.

Loftferðasamningur Íslands og Kanada frá árinu 2007 hefur ákveðin lokunaráhrif á markaði fyrir áætlunarflug frá Íslandi til Kanada. Samningurinn hefur að geyma skilyrði um að tilnefndur íslenskur flugrekandi verði að bjóða upp á áætlunarflug til Halifax a.m.k. þrisvar í viku yfir sumartímann og tvisvar í viku yfir vetrartímann. Þetta skilyrði er bæði forsenda þess að Ísland geti tilnefnt íslenskan flugrekanda til að fljúga til Kanada og forsenda þess að hægt sé að byggja á samningnum. Icelandair hefur verið eini íslenski flugrekandinn sem tilnefndur er til að fljúga til Kanada enda hefur enginn annar íslenskur flugrekandi viljað taka á sig framangreindar skyldur um að bjóða upp á áætlunarflug til Halifax.

Flugmálastjórn mun taka til sín þau atriði sem að stofnuninni snýr er koma fram í áliti Samkeppniseftirlitsins. Verklagi hefur þegar verið breytt og vísar Flugmálastjórn á bug öllum aðdróttunum um að vera handbendi ákveðins flugrekanda enda leitast stofnunin til við að veita heimildir í takt við alþjóðlegt verklag í flugréttindum en veitir hins vegar ekki heimildir á grundvelli samkeppnislaga.