Flugmálastjórn tilkynnir breyttar vinnureglur um skráningu loftfars á íslenska loftfaraskrá

20.12.2010

Flugmálastjórn tilkynnir breyttar vinnureglur um skráningu loftfars á íslenska loftfaraskrá skv. 2. og 3. mgr. 10. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, ásamt síðari breytingum, og um skráningu og afskráningu slíkra loftfara af flugrekendaskírteini (AOC). En um er ræða þau tilvik þegar íslenskum flugrekanda er heimilað að skrá loftfar sem það hyggst nota í rekstri sínum á íslenska loftfaraskrá þrátt fyrir að það sé í eigu einstaklinga eða lögaðila með erlent ríkisfang og heimilisfesti. Í þessum tilvikum er hinn íslenski flugrekandi skráður sem umráðandi viðkomandi loftfars og ber ábyrgð á því gagnvart Flugmálastjórn. Tilgangurinn með þessum breyttu vinnureglum er að gera ábyrgð umráðanda skýrari og gagnsærri og tryggja að fullnægjandi gögn séu lögð fram við beiðni um skráningu skv. 2. og 3. mgr. 10. gr.
Framvegis verður loftfar eigi skráð á íslenska loftfaraskrá skv. 2. og 3. mgr. 10. gr. nema fyrir liggi staðfesting þess efnis að fyrirhugaður íslenskur umráðandi hafi fullt umráð og stjórn á loftfarinu strax við skráningu og leigusamningur milli eiganda og umráðanda taki skýrt á þessu.
Þegar umráðandi sækir um að loftfar sé tekið af flugrekendaskírteini sínu skal hann gera grein fyrir hvað verður um loftfarið þ.e. hvort fyrirhugað sé að umráðandi verði áfram skráður sem umráðandi þess og því áfram með ábyrgð og stjórn á loftfarinu m.a. undir sínu EASA CAMO leyfi eða hvort fyrirhugað sé að skila loftfarinu til skráðs eiganda.
Umráðandi sem hyggst skila loftfari, sem hefur verið skráð á íslenska loftfaraskrá skv. 2. mgr. og 3. mgr. 10. gr., til erlends eiganda, ber ábyrgð á því að ekkert hamli að loftfarið verði tekið af íslenskri loftfaraskrá. Umráðandi ber jafnframt ábyrgð á greiðslum á öllum gjöldum til Flugmálastjórnar vegna loftfarsins.
Umráðanda verður framvegis gert að undirrita yfirlýsingu um framangreinda ábyrgð sína á hinu skráða loftfari gagnvart Flugmálastjórn Íslands.

Vinnureglur þessar taka strax gildi.