Evrópusambandið hyggst auka eftirlit með farmi frá ríkjum utan sambandsins

1.12.2010

Evrópusambandið hyggst setja nýjar reglur um eftirlit með farmi og pósti sem kemur til sambandsins frá ríkjum utan þess og styrkja þannig flugvernd.

Þetta eru tillögur vinnuhóps um flugöryggi sem lagðar voru fram þann 29. nóvember 2010 og eru viðbrögð við misheppnaðri tilraun til að senda sprengju í pakka frá Jemen seint í október s.l. Tillögurnar verða lagðar fyrir samgönguráðherra sambandsins á morgun 2. desember 2010 í Brussel.

Líklegt er að tillögurnar verði lagðar formlega fram í byrjun næsta árs af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin vill leggja áherslu áhættumat í viðleitni sinni til að auka flugvernd og auka þar með eftirlit með farmi sem flokkaður er sem hættulegur. Fyrsta skrefið verður að skilgreina viðmið um hverskonar farmur telst hættulegur og síðan meta eftirlit á flugvöllum í sambandinu. Þá mun Evrópusambandið meta hvernig evrópskir flugvellir haga eftirliti sínu en könnun sambandsins sýndi að því var ábótavant. Þá mun ESB vinna með alþjóðasamtökum s.s. ICAO að málinu.

Þetta kemur fram í 4093-hefti Europolitics